Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mið 15. júní 2022 21:25
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Skagamenn fara svekktir heim úr Vesturbæ
Eyþór Aron Wöhler skoraði tvö mörk Skagamanna
Eyþór Aron Wöhler skoraði tvö mörk Skagamanna
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ægir Jarl gerði jöfnunarmark KR í fyrri hálfleiknum
Ægir Jarl gerði jöfnunarmark KR í fyrri hálfleiknum
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Alex Davey varð fyrir því óláni að koma boltanum í eigið net í uppbótartíma
Alex Davey varð fyrir því óláni að koma boltanum í eigið net í uppbótartíma
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR 3 - 3 ÍA
0-1 Eyþór Aron Wöhler ('17 )
1-1 Ægir Jarl Jónasson ('27 )
2-1 Atli Sigurjónsson ('47 )
2-2 Steinar Þorsteinsson ('66 )
2-3 Eyþór Aron Wöhler ('74 )
3-3 Alexander Davey ('94 , sjálfsmark)
Lestu um leikinn

ÍA og KR gerðu sex marka jafntefli, 3-3, í erkifjendaslag í 9. umferð Bestu deildar karla á Meistaravöllum í Vesturbæ í dag. Það var mikið um umdeilt atvik í leiknum.

Skagamenn höfðu ekki skorað í síðustu fjórum leikjum sínum fram að leiknum í kvöld á meðan KR-ingar höfðu unnið síðustu þrjá leiki.

Liðin mættu vel gíruð eftir gott frí og sköpuðu sé nokkur hálf færi í byrjun leiks áður en gestirnir opnuðu leikinn með marki á 17. mínútu leiksins.

Árni Snær Ólafsson átti langan bolta fram sem Kennie Chopart tók á móti. Snertingin var ekki góð og gat Gísli Laxdal Unnarsson ráðist á boltann, sem hann gerði. Hann vann boltann og virtist slá til Kennie sem datt í grasið. Helgi Mikael Jónasson, dómari, lék leikinn fljóta áfram og upp úr því kom markið.

Gísli lagði boltann vinstra megin í teiginn á Steinar Þorsteinsson sem kom honum fyrir á Eyþór Aron Wöhler og þaðan í netið. Það mátti ekki miklu muna að Eyþór hafi verið rangstæður en markið gott og gilt.

Nokkrum mínútum síðar vildu Skagamenn fá víti er Kristinn Jónsson þrumaði Steinar niður er hann reyndi að keyra með boltann úr vítateignum. Helgi Mikael leit framhjá því.

Ægir Jarl Jónasson jafnaði metin á 27. mínútu með góðum skalla eftir fyrirgjöf Atla Sigurjónssonar. Ægir var aleinn og óvaldaður og eftirleikurinn auðveldur.

Þremur mínútum síðar voru það KR-ingar sem vildu vítaspyrnu en fengu ekki er Oliver Stefánsson straujaði í gegnum Atla í teignum.

Blóðugt jöfnunarmark í lokin

Atli Sigurjónsson kom KR-ingum yfir í byrjun síðari hálfleiks með góðu skoti á nærstöngina hjá Árna.

Ægir Jarl var nálægt því að bæta við öðru marki sínu á 56. mínútu en skotið framhjá.

Þegar hálftími var eftir átti Steinar Þorsteinsson rosalegt skot af löngu færi en bolinn skall í slá. Heppnin ekki með honum í þetta sinn en hún var það sex mínútum síðar.

Eyþór Aron keyrði upp hægri kantinn, kom boltanum fyrir markið á Steinar sem þrumaði boltanum í netið. Átta mínútum síðar bætti Eyþór svo við öðru marki sínu eftir að Gísli Laxdal keyrði inn í teiginn vinstra megin og kom með sendingu meðfram grasinu og til Eyþórs sem kom ÍA í 3-2.

Fjórum mínútum var bætt við venjulegan leiktíma og þegar rúmar þrjár mínútur voru liðnar gerðu KR-ingar jöfnunarmarkið. Aron Kristófer Lárusson tók aukaspyrnu sem fór inn á teiginn. Finnur Tómas Pálmason stökk upp með Alex Davey, en Skotinn varð fyrir því óláni að stanga boltann aftur fyrir sig í netið.

Árni Snær Ólafsson þurfti í kjölfarið aðhlynningu eftir að hafa fengið takkana frá Finni Tómasi Pálmasyni í andlitið. Blóðið streymdi niður kinnarnar. Árni var stökkbólginn eftir atvikið en kláraði leikinn.

Lokatölur 3-3 í háspennuleik. KR er áfram í 5. sæti með 15 stig en ÍA í 10. sæti með 7 stig.
Athugasemdir
banner
banner