Alexander Isak, framherji Newcastle, vill ganga til liðs við Liverpool en tilboðum hefur verið hafnað. Staðan virðist í hnút og þetta mál gæti staðið yfir allt fram að gluggalokum.
Eddie Howe, stjóri Newcastle, staðfesti á fréttamannafundi í morgun að Isak muni hvorki spila né æfa með liðinu eins og staðan er.
„Staðan hans hefur verið óbreytt í nokkurn tíma og það mun halda áfram að vera þannig. Ég viðurkenni að staðan hefur haft veruleg áhrif á undirbúning liðsins og Isak er einn af bestu framherjum í heiminum," segir Howe.
„Hann er samningsbundinn okkur, en þetta er ekki í mínum höndum. Engin ný tilboð í Isak hafa borist, hvorki frá Liverpool né öðrum félögum."
Á meðan staðan er óbreytt hefur Howe sagt að liðið þurfi að sætta sig við ástandið og einbeita sér að því sem það getur stjórnað. Hann segir gott andrúmsloft innan leikmannahópsins þrátt fyrir áskoranirnar sem fylgja fjarveru Isak.
Newcastle heimsækir Aston Villa í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar á morgun. Howe segir stöðuna á sínum leikmannahópi annars góða en Joe Willock verði þó ekki með á morgun, meiðsli hans séu ekki alvarleg og ekki langt í að hann snúi aftur af meiðslalistanum
Athugasemdir