fös 15.ágú 2025 10:00 Mynd: EPA |
|

Spáin fyrir enska: 1. sæti
Enska úrvalsdeildin, þjóðaríþrótt Íslendinga, fer aftur af stað í kvöld þegar Liverpool og Bournemouth eigast við í opnunarleik. Líkt og síðustu ár þá kynnum við liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net.
Á toppnum eru Englandsmeistarar Liverpool. Við spáum því að þeir muni verja titilinn.
Trent Alexander-Arnold fór til Real Madrid. Er það ákvörðun sem hann mun sjá eftir?
Mynd/Real Madrid
En fljótlega sást að það var mikið spunnið í Slot sem náði því mesta út úr leikmannahópnum. Klopp er auðvitað goðsögn hjá Liverpool en það er erfitt að sjá að hann hefði gert þetta lið að Englandsmeistara á síðasta tímabili. Slot kom inn með aðeins öðruvísi áherslur og þær virkuðu. Deildin var í raun og veru ekki spennandi þar sem Liverpool var langbesta liðið frá byrjun með stórkostlegan Mohamed Salah í aðalhlutverki. Þegar upp er staðið, og hann fer frá Liverpool, þá verður Salah án efa talinn sem einn af bestu leikmönnum í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Einhverjir munu segja hann vera bara þann besta. Mikið svakalega hefur Egyptinn verið góður fyrir Liverpool og hann toppaði sig á síðasta tímabili þegar hann endaði sem markakóngur ensku úrvalsdeildarinnar.
— Mohamed Salah (@MoSalah) August 13, 2025
Það var frábært fyrir Liverpool að fagna með stuðningsmönnum sínum á Anfield í lok tímabilsins en vinnan fyrir komandi tímabil var þá hafin. Richard Hughes og Michael Edwards, mennirnir á bak við tjöldin hjá Liverpool, hafa verið í yfirvinnu í sumar og Arne Slot hefur gert frábærlega í að sannfæra leikmenn um að velja Liverpool verkefnið. Florian Wirtz valdi Liverpool fram yfir Bayern München, Manchester City og Real Madrid. Bakverðirnir Milos Kerkez og Jeremie Frimpong eru frábærir og Hugo Ekitike er mjög spennandi. Liverpool virðist vera að landa tveimur miðvörðum og það virðist óumflýjanlegt að Alexander Isak verði leikmaður Liverpool áður en glugginn lokar. Ef allt gengur upp sem Liverpool er að plana, þá verða þeir illviðráðanlegir í vetur og það kemur ekkert á óvart að þeim sé spáð efsta sæti. Það er alvöru metnaður í gangi á Anfield og mjög spennandi tímar framundan.
Liverpool lenti í gríðarlegu áfalli í sumar þegar Diogo Jota, sóknarmaður liðsins, og bróðir hans létust í bílslysi á Spáni. Þetta voru fréttir sem leiddu til sorgar hjá öllum heiminum. Liverpool hefur tæklað þetta mikla áfall mjög fallega en félagið lagði treyjunúmer hans til hliðar ásamt því að borga fjölskyldu hans laun hans áfram. Jota var í miklum metum hjá stuðningsmönnum Liverpool og það verður magnað að fylgjast með andanum á Anfield í vetur. Stuðningsmenn munu syngja hans nafn stanslaust og þetta mikla áfall mun eflaust sameina félagið mikið þó erfitt verði að komast yfir sorgina.
Queues to sign the Diogo Jota mural ?? pic.twitter.com/aGhQH1nE7x
— The Anfield Wrap (@TheAnfieldWrap) August 6, 2025
Stjórinn: Eins og hér fyrr segir þá tók Hollendingurinn Arne Slot við Liverpool af Jurgen Klopp fyrir síðasta tímabil. Klopp er goðsögn hjá Liverpool þar sem hann endurbyggði félagið og kom því á toppinn á Englandi aftur. Sá þýski vann allt sem hægt var að vinna með Liverpool en hann var orðinn þreyttur og ákvað að segja þetta gott í fyrra. Það var mikið rætt um mögulega arftaka hans. Xabi Alonso var fyrst mjög mikið nefndur og svo kom Rúben Amorim inn í umræðuna, en Slot var ekkert nefndur fyrr en seint í ferlinu. Hann hafði hins vegar lengi verið undir smásjá stjórnenda Liverpool og þeir töldu hann rétta manninn. Það var eftir vægast sagt góð ákvörðun því Slot hefur tekið starfið með báðum höndum og gert frábærlega. Að verða Englandsmeistari á sínu fyrsta tímabili er alls ekki auðvelt en hann gerði það. Slot er öðruvísi en Klopp þar sem hann spilar ekki sama rokk og ról fótbolta. Hann er sveigjanlegri í sinni nálgun þó hann spili auðvitað góðan og skemmtilegan fótbolta. Hann er ekki alveg eins agressívur og Klopp. Slot er mjög vinsæll á meðal stuðningsmanna Liverpool - skiljanlega - og það hefur verið stutt vel við bakið á honum í sumar. Hann er skemmtilegur karakter, mun skemmtilegri en kollegi sinn Erik ten Hag, sem stýrði Manchester United á síðasta tímabili.
Leikmannaglugginn: Ef Liverpool tekst að landa Marc Guehi og Alexander Isak fyrir gluggalok þá verður þetta einhver besti félagaskiptagluggi sögunnar. Liverpool mætir með sterkari leikmannahóp til leiks þetta tímabilið og þeir eru ekki hættir á markaðnum.
Komnir:
Florian Wirtz frá Bayer Leverkusen - 116 milljónir punda
Hugo Ekitiké frá Eintracht Frankfurt - 79 milljónir punda
Milos Kerkez frá Bournemouth - 40 milljónir punda
Jeremie Frimpong frá Bayer Leverkusen - 29,5 milljónir punda
Giorgi Mamardashvili frá Valencia - 25 milljónir punda
Armin Pecsi frá Puskás Akadémia - 1,5 milljónir punda
Freddie Woodman frá Preston - Á frjálsri sölu
Farnir:
Luis Díaz til Bayern München - 65,5 milljónir punda
Darwin Núñez til Al-Hilal - 46 milljónir punda
Jarell Quansah til Bayer Leverkusen - 30 milljónir punda
Tyler Morton til Lyon - 15 milljónir punda
Caoimhín Kelleher til Brentford - 12,5 milljónir punda
Trent Alexander-Arnold til Real Madrid - 10 milljónir punda
Nat Phillips til West Brom - 3 milljónir punda
Vitezslav Jaros til Ajax - Á láni
Líklegt byrjunarlið

Þrír lykilmenn:
Virgil van Dijk virkaði frekar utan við sig í leiknum við Crystal Palace í Samfélagsskildinum núna á dögunum. Hann var ekki nægilega góður þar og verður að vera betri þegar tímabilið byrjar. Van Dijk hefur verið besti miðvörður ensku úrvalsdeildarinnar og heimsins síðustu árin en hann er orðinn 34 ára og það fer að hægjast á honum. Vonandi fyrir Liverpool mun það ekki gerast á komandi tímabili.
Alexis Mac Allister hefur verið gífurlega mikilvægur fyrir Liverpool frá því hann kom frá Brighton á gjafaverði. Hann var mjög góður undir Slot á síðasta tímabili og vonandi fyrir Liverpool heldur hann áfram í sama fari í vetur. Mac Allister er algjör vel inn á miðsvæðinu og átti stóran þátt í Englandsmeistaratitlinum á síðustu leiktíð.
Mohamed Salah var besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili, án nokkurs vafa. Þvílíkur leikmaður sem Liverpool á með honum, en Salah hefur alls gert 245 mörk í 402 leikjum fyrir Liverpool. Hann átti sitt besta tímabil í langan tíma fyrir Liverpool á síðasta tímabili en eins og Van Dijk þá er spurning hvenær fer að hægjast á honum þar sem hann er 33 ára gamall.
Fylgist með: Það verður auðvitað gaman að fylgjast með öllum nýjum leikmönnunum og hvað helst Wirtz sem er einn mest spennandi leikmaður í heimi. Wirtz valdi Liverpool fram yfir risastór félög og það er ljóst að þarna er gífurlega hæfileikaríkur leikmaður á ferðinni. Rio Ngumoha er þá 16 ára gamall kantmaður sem kemur til með að fá hlutverk í liði Liverpool í vetur. Ngumoha kom til Liverpool úr akademíu Chelsea í fyrra. Hann spilaði einn leik með aðalliði Liverpool á síðustu leiktíð en þeir verða fleiri á komandi leiktíð. Hann hefur spilað vel á undirbúningstímabilinu og heillað marga. Stuðningsmenn Liverpool hafa líkt honum við ungan Raheem Sterling en hann sé með hærra þak til að ná langt. „Við rændum honum af Chelsea. Þeir á skrifstofunni hjá Chelsea voru mjög ósáttir þegar hann skipti yfir. Ég ætla að leyfa mér að segja að þetta sé efnilegasti leikmaður Bretlandseyja," sagði Arnar Laufdal, stuðningsmaður Liverpool, í hlaðvarpi hér á Fótbolta.net á dögunum.
16-year-old Rio Ngumoha looks like a special talent ????
— B/R Football (@brfootball) August 4, 2025
(via @CBSSportsGolazo)pic.twitter.com/xpAJ2XDFxd
Besta og versta niðurstaða: Besta niðurstaðan er að Liverpool verði Englandsmeistari með yfirburðum, eins og á síðasta tímabili. Þeir bæti þá líka við fleiri titlum á sama tíma eins og til dæmis Meistaradeildinni. Versta niðurstaðan er að nýju leikmennirnir finni ekki taktinn og Liverpool verði í topp fjórum, en ekki á toppnum. Þetta er of góður hópur til þess að fara eitthvað neðar en það.
Þau sem spáðu: Anton Freyr Jónsson, Elíza Gígja Ómarsdóttir, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Haraldur Örn Haraldsson, Ívan Guðjón Baldursson, Kári Snorrason, Mate Dalmay, Snæbjört Pálsdóttir, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke og Sölvi Haraldsson.
Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni..
Spáin:
1. Liverpool, 228 stig
2. Man City, 225 stig
3. Arsenal, 218 stig
4. Chelsea, 215 stig
5. Newcastle, 182 stig
6. Tottenham, 172 stig
7. Aston Villa, 169 stig
8. Man Utd, 157 stig
9. Brighton, 144 stig
10. Nottingham Forest, 108 stig
11. Crystal Palace, 98 stig
12. Everton, 97 stig
13. Fulham, 93 stig
14. West Ham, 92 stig
15. Bournemouth, 85 stig
16. Brentford, 79 stig
17. Leeds, 53 stig
18. Wolves, 50 stig
19. Sunderland, 33 stig
20. Burnley, 22 stig
Athugasemdir