Tómas Þór Þórðarson ræddi við Auðun Helgason í útvarpsþætti Fótbolta.net á X-inu í gær. Auðun er fyrrum landsliðsmaður en hann er nú aðstoðarþjálfari Fram. Árangur íslenska landsliðsins var meðal umræðuefna.
„Íslenska landsliðið steig ansi stórt skref í þessum leik í Albaníu með því að fylgja eftir þessum frábæru úrslitum í Sviss. Fyrirfram eru það frábær úrslit að fá stig á erfiðum útivelli gegn toppliði riðilsins. Þeir ná sannarlega að taka það góða með sér frá Bern og spila undir mikilli pressu á heimavelli," sagði Auðun.
„Ég var mjög ánægður með þjálfarateymið að láta ekki undan pressu. Það hefði verið auðvelt að hringla eitthvað í vörninni eftir leikinn í Sviss. Sú ákvörðun sýnir ákveðna yfirvegun, reynslu og framsýni hjá þjálfarateyminu. Það koma leikir þar sem menn eiga ekki sýna bestu daga. Þeir sem áttu á brattann að sækja í Sviss stigu heldur betur upp."
„Það er ekki hægt að ræða þennan leik án þess að minnast á Gylfa og Kolbein. Þeir sýndu gríðarlega baráttu og vinnusemi auk þess að hafa öll þessi gæði á boltann. Þeir unnu eins og brjálæðingar. Þannig vinnusemi skóp þennan góða sigur."
Landsliðið í dag flinkara
Þegar Auðun var í landsliðinu var liðið og uppleggið allt öðruvísi.
„Þessi ár sem ég var í landsliðinu var rík áhersla lögð á varnarleikinn. Það var hárrétt hugsun á þeim tíma. Einhverstaðar þarf að byrja. Þetta er ákveðin þroskaganga sem íslenska landsliðið er að ganga í gegnum. Samsetningin á liðinu var þannig að það var ákveðið að spila sterkan varnarleik og byggja þetta meira á skyndisóknum. Við spiluðum venjulega 5-4-1 en í dag leikur liðið 4-4-2. Týpurnar í liðinu í dag eru mun flinkari á boltann en landsliðið gat boðið upp á fyrir tíu árum," sagði Auðun.
„Úrval varnarmanna var meira. Smægð þjóðarinnar gerir það að verkum að við getum aldrei átt 2-3 í hverri einustu stöðu. Miðsvæðis og fram á við erum við komnir með feykilegt úrval af leikmönnum og með ólíkindum að Alfreð Finnbogason tekur ekki þátt í þessum leikjum en engu að síður skorum við öll þessi mörk og spilum glimrandi sóknarleik. Þetta er frábær lúxus þó maður vildi að liðið ætti fleiri öfluga varnarmenn."
„Ef allt er eðlilegt þá vinnum við Kýpur og þá er hægt að taka stöðuna á því hvernig við förum inn í leikinn í Osló. Það er frábær að við séum komnir þetta langt. Íslenska landsliðið er í öðru sæti og örlögin í okkar höndum. Ég hef fulla trú á því að liðið klári þetta."
Ber mikla virðingu fyrir Lagerback
Auðun þekkir Lars Lagerback frá því að hann tók UEFA námskeið í Englandi. Lagerback var með þjálfurunum á námskeiðinu þá viku.
„Það var frábær vika þar sem maður lærði helling. Hann var með erindi þar sem fjallaði einmitt um íslenska landsliðið. Svo voru umræður og annað sem hann tók þátt í. Þá kynntist maður honum gegnum fjölmiðla í Svíþjóð þegar maður spilaði þar. Hann er feykilega yfirvegaður, með skýra sýn og veit hvað hann er að gera. Hann heldur fast í sína hugmyndafræði. Það er alveg ljóst að umgjörðin í kringum liðið er betri en hún var," sagði Auðun.
„Hann er greinilega að ná mjög vel til leikmanna. Maður heyrir það á þeim leikmönnum sem maður hefur rætt við. Það eru skýrar reglur sem allir fara eftir og mönnum líður vel. Hann er ekki að drekkja mönnum í taktík en er þó mjög taktískur. Það sem ég þekki af honum er hann rosalega öflugur þjálfari og maður ber mikla virðingu fyrir honum."
Hægt er að hlusta á viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir