Bayern vill Bernardo Silva - Skotlmark Man Utd og Liverpool vill fara til Real - Ensk félög horfa til Kimmich
   fös 15. september 2023 16:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Íþróttasálfræðingurinn hættir hjá Val - „Kannski starfa ég áfram á Íslandi"
Thomas Danielsen starfaði hjá Val í sumar.
Thomas Danielsen starfaði hjá Val í sumar.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Thomas á varamannabekknum hjá Val. Arnar Grétarsson og Sigurður Heiðar Höskuldsson fyrir framan hann.
Thomas á varamannabekknum hjá Val. Arnar Grétarsson og Sigurður Heiðar Höskuldsson fyrir framan hann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég vona að það verði eitthvað spennandi og metnaðarfullt verkefni á Íslandi'
'Ég vona að það verði eitthvað spennandi og metnaðarfullt verkefni á Íslandi'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íþróttasálfræðingurinn Thomas Danielsen er að hætta hjá Val eftir að hafa starfað hjá félaginu undanfarið ár. Hann hefur bæði starfað í kringum karla- og kvennalið félagsins.

Thomas hafði starfað í Danmörku áður en hann kom til KA í fyrra. Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, hafði unnið með honum á meðan hann var leikmaður í Danmörku. Thomas hefur starfað með atvinnumönnum í fótbolta, handbolta, íshokký, golfi sem og ólympískum íþróttamönnum á hæsta stigi.

Eftir að Arnar Grétarsson tók við Val, þá fór Thomas þangað líka. Þegar hann var kynntur til leiks hjá félaginu þá var sagt: „Thomas mun sinna einstaklingsmiðaðri þjálfun og markmiðasetningu meistaraflokka knattspyrnudeildar ásamt því að vinna úr upplýsingum, greina og vinna upp úr þeim mælingum sem flokkarnir nota."

„Ég hef haft mjög gaman að því að vinna með Arnari sem er persónulegur vinur minn. Og auðvitað Sigga og öllum leikmönnunum líka. Ég hef líka verið að vinna með kvennaliðinu en ég hafði ekki prófað það áður að vinna í kvennaboltanum," segir Thomas í samtali við Fótbolta.net en hann verður ekki áfram hjá Val eftir tímabilið.

„Ég náði ekki samkomulagi við stjórnina og það var betra fyrir alla að kveðja í bili. Við sáum ekki fótbolta á sama hátt. Þetta er leiðinlegt en svona er fótboltinn. Ég er virkilega ánægður með tíma minn í Val og þetta hefur verið frábært tímabil. Ég hef vonandi skilið eitthvað eftir mig innan félagsins."

Thomas segist vera tilbúinn að starfa áfram á Íslandi ef metnaðarfullt verkefni býðst.

„Það er kominn tími á að halda áfram. Kannski verður næsta skref í Danmörku eða kannski starfa ég áfram á Íslandi. Ég kann mjög vel við það að búa á Íslandi. Ég hef heyrt af áhuga frá öðrum félögum en ég hef ekki skrifað undir neitt enn sem komið er. Ég á eftir að ákveða hvað ég geri."

Eins konar nýjung í fótboltanum á Íslandi
Áður en Thomas kom til Íslands þá hafði ekki heyrst mikið um það að fótboltalið hér á landi væru að notast við íþróttasálfræðinga, og hvað þá í fullu starfi. Andlegi þátturinn í fótboltanum er gríðarlega mikilvægur en í sínu starfi hjálpar Thomas íþróttafólki að bæta frammistöðu sína inn á vellinum með því að vinna í og aðstoða við andlega þáttinn.

„Þetta starf er ekki nýtt í Danmörku en þetta er að þróast hér á Íslandi. Ef félög eru metnaðarsöm og vilja þróa leikmenn líkamlega, andlega og taktískt þá er mikilvægt að hafa einhvern í þessu starfi."

„Þetta er frammistöðusálfræði. Þetta snýst um að hafa þekkingu og vita hvað manneskjur þurfa til að ná árangri. Ég vann með Hallgrími Jónassyni (þjálfara KA) þegar hann var í Danmörku og hann fékk mig til Íslands. Arnar starfaði erlendis og veit hversu mikilvægt þetta er," sagði Thomas en það verður áhugavert að sjá hvað hann tekur sér fyrir hendur næst.

„Ég vona að það verði spennandi og metnaðarfullt verkefni á Íslandi því mér finnst mjög gaman að vera hérna. Ég hef bara hitt frábært fólk og vinnusama þjálfara. Ég er með mína sýn á hvernig félögin geta komist lengra," sagði hann að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner