Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 15. nóvember 2020 19:35
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Freyr spurður um framtíðina - „Eins og hann væri að leggja inn umsókn"
Icelandair
Freyr og Erik Hamren.
Freyr og Erik Hamren.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Freyr Alexandersson, aðstoðarlandsliðsþjálfari, var spurður út í framtíð sína hjá íslenska landsliðinu fyrir leikinn gegn Danmörku í Þjóðadeildinni.

Freyr, sem hefur verið aðstoðarlandsliðsþjálfari frá 2018 og þjálfari kvennalandsliðið þar áður, ræddi við Stöð 2 Sport fyrir leikinn.

Erik Hamren er að hætta eftir leikinn gegn Englandi á miðvikudag. Hvað verður þá um Frey?

„Samningurinn minn er búinn 31. desember. Eins og staðan er núna er ég að fara til Katar á fimmtudaginn," sagði Freyr en hann mun aðstoða Heimi Hallgrímsson hjá Al Arabi í Katar.

„Hvort að síðasti leikurinn minn með landsliðinu í bili verði á Wembley (á miðvikudag), það kemur bara í ljós hvað það bil verður langt. Hvort það verði eitthvað framhald á næsta ári, eða eftir tvö ár eða eftir sex ár eða aldrei. Ég veit það bara ekki. Ég ætla að leyfa mér að njóta þessara síðustu daga og svo tölum við saman seinna."

Atli Viðar Björnsson, fyrrum sóknarmaður FH, og Davíð Þór Viðarsson, nýráðinn aðstoðarþjálfari FH, ræddu þessi ummæli Freys á Stöð 2 Sport.

„Hann útilokar ekki neitt þó hann sé búinn að semja í Katar. Hann er ekki tilbúinn að strika sjálfan sig út af borðinu," sagði Atli Viðar.

„Þetta var smá eins og hann væri að leggja inn umsókn, það vantaði bara ferilskrána með," sagði Davíð Þór.

Freyr var á lista sem var tekinn saman í útvarpsþættinum í gær yfir fimm líklegustu Íslendingana til að taka við landsliðinu. Heimir Hallgrímsson, þjálfari Al Arabi og fyrrum landsliðsþjálfari, var einnig á þeim lista.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner