Arsenal ræðir við Palace um Eze - Mateta hitti Liverpool - McAtee skoðar aðstæður í Frankfurt
   sun 15. nóvember 2020 10:40
Ívan Guðjón Baldursson
Hilmar Leon spilaði við Litháen í handbolta og fótbolta
Mynd: HB twitter
Mynd: HB
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
BBC birti skemmtilega grein í morgun um færeyska íþróttasnillinginn Hilmar Leon Jakobsen. Þegar 2020 byrjaði var Hilmar Leon einn af betri handboltamönnum Færeyja en þegar Covid skall á ákvað hann að reyna aftur fyrir sér í fótboltaheiminum, eftir að hafa neyðst til að hætta knattspyrnuiðkun vegna mjaðmameiðsla.

Hilmar hætti í fótbolta 17 ára þegar hann var gríðarlega mikið efni bæði í fótbolta og handbolta. Hann var byrjaður að spila fyrir HB Torshavn og var talinn meðal bestu leikmanna í sínum aldursflokki.

„Ég hef alltaf viljað vera knattspyrnumaður en læknarnir ráðlögðu mér að stoppa þegar ég var 17 ára gamall eftir að ég þurfti að fara í aðgerð á mjöðm. Læknarnir sögðu að handbolti væri betri fyrir heilsuna. Það var mjög svekkjandi fyrir mig að heyra það," sagði Hilmar.

„Ég vildi verða atvinnumaður í knattspyrnu en neyddist til að gefa þann draum upp á bátinn og spila handbolta í staðinn."

Hilmar spilaði fyrir H71, besta handboltaliðið í Færeyjum, og hefur unnið bæði deild og bikar auk þess að eiga landsleiki að baki. Þegar Covid skall á fyrr á árinu var handboltinn í Færeyjum stöðvaður og ákvað Hilmar að reyna aftur fyrir sér í fótboltanum, með ótrúlegum árangri. Hilmar byrjaði að spila fyrir HB 4. júlí og endaði á að skora 12 mörk í 17 leikjum er HB tryggði sér titilinn.

„Ég ákvað að byrja að æfa með varaliði HB þegar Covid skall á til að halda mér í formi. Ég stóð mig vel á æfingum og allt í einu var þjálfarinn að biðja mig um að spila fyrir aðalliðið. Ég sagði nei í fyrstu því mér fannst það ekki sérlega góð hugmynd en svo hugsaði ég málið aðeins og ákvað að prófa að spila. Þessi ákvörðun hefur breytt lífi mínu."

Hilmari var hent í fremstu víglínu hjá HB þó hann væri vinstri kantmaður og bakvörður að upplagi og gekk eins og í sögu.

„Ég hafði aldrei spilað sem fremsti maður en þjálfarinn ákvað að hann vildi hafa mig í teignum og það skilaði árangri."

Hilmar spilaði sinn fyrsta A-landsleik fyrir Færeyjar fyrr á árinu þegar liðið spilaði við Litháen. Til gamans má geta að Hilmar spilaði einnig við Litháen fyrr á árinu, í handbolta.

„Þetta er besta ár lífs mins. Allt í einu er ég orðinn knattspyrnumaður aftur, að vinna titla og spila fyrir þjóð mína í minni uppáhalds íþrótt. Svo vann Liverpool ensku deildina sem gerir þetta allt enn betra. Ég var ekki fæddur þegar þeir unnnu síðast.

„Héðan í frá mun ég leggja allt í knattspyrnuferilinn. Strákarnir í handboltanum verða kannski sárir en þeir skilja ákvörðunina og standa þétt við bakið á mér. Markmiðið er að komast í atvinnumennsku í Skandínavíu og halda svo í stærri deild ef vel gengur. Það er aldrei að vita hvað gerist, lífið kemur sífellt á óvart."

Athugasemdir
banner
banner