Jose Mourinho, stjóri Tottenham, staðfesti í samtali við portúgalska fjölmiðla að félagið gæti skilað miðjumanninum Gedson Fernandes til Benfica í janúar ef portúgalska félagið óskar eftir því.
Fernandes kom á 18 mánaða lánssamningi í janúar en hefur ekki tekist að hrífa þjálfarateymi Spurs. Fernandes er aðeins 21 árs gamall og þótti eitt mesta efni Portúgal en hefur ekki staðist væntingar.
„Fyrir mér er ekki vandamál að hafa hann í hóp, hann er frábær uppá breiddina. Hann er fagmaður fram í fingurgóma og það er ekkert vandamál fyrir mig þó ég skilji hann eftir heima," sagði Mourinho, en Benfica vill að Fernandes fái meiri spiltíma hjá Tottenham. Hann hefur aðeins komið við sögu í þrettán leikjum frá komu sinni til félagsins.
„Ég mun ekki reka hann í burtu en ég skil að Benfica gæti viljað hann aftur í janúar. Ef Benfica vill fá hann aftur þá fer hann heim."
Fernandes hefur átt erfitt með að koma sér í liðið hjá Tottenham enda mikil samkeppni við menn á borð við Pierre-Emile Hojbjerg, Moussa Sissoko og Tanguy Ndombele.
Þá eru Giovani Lo Celso, Harry Winks, Eric Dier og Dele Alli einnig hjá félaginu.
Athugasemdir