Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   fim 16. janúar 2014 15:45
Ingvi Þór Sæmundsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Titilbaráttan 1995-96
Ingvi Þór Sæmundsson
Ingvi Þór Sæmundsson
Eric Cantona var magnaður tímabilið 1995/1995.
Eric Cantona var magnaður tímabilið 1995/1995.
Mynd: Getty Images
Leikmenn Manchester United fagna sigurmarki Cantona í bikarúrslitunum.
Leikmenn Manchester United fagna sigurmarki Cantona í bikarúrslitunum.
Mynd: Getty Images
Cantona tekur við bikarnum.
Cantona tekur við bikarnum.
Mynd: Getty Images
Ummæli Alan Hansen um lið Manchester United vöktu mikla athygli.
Ummæli Alan Hansen um lið Manchester United vöktu mikla athygli.
Mynd: Getty Images
Paul Scholes í leik árið 1996.
Paul Scholes í leik árið 1996.
Mynd: Getty Images
Kevin Keegan stýrði Newcastle tímabilið 1995/1996.
Kevin Keegan stýrði Newcastle tímabilið 1995/1996.
Mynd: Getty Images
David Ginola á ferðinni í leik með Newcastle.
David Ginola á ferðinni í leik með Newcastle.
Mynd: Getty Images
Robbie Fowler raðaði inn mörkum með Liverpool.
Robbie Fowler raðaði inn mörkum með Liverpool.
Mynd: Getty Images
Faustino Asprilla kom til Newcastle frá Parma.
Faustino Asprilla kom til Newcastle frá Parma.
Mynd: Getty Images
Úr toppslag Newcastle og Manchester United.
Úr toppslag Newcastle og Manchester United.
Mynd: Getty Images
Leikmenn Manchester United fagna marki Cantona í toppslagnum.
Leikmenn Manchester United fagna marki Cantona í toppslagnum.
Mynd: Getty Images
Peter Schmeichel var öflugur í marki Manchester United.
Peter Schmeichel var öflugur í marki Manchester United.
Mynd: Getty Images
Shaka Hislop markvörður Newcastle.
Shaka Hislop markvörður Newcastle.
Mynd: Getty Images
Úr ótrúlegum leik Liverpool og Newcastle.
Úr ótrúlegum leik Liverpool og Newcastle.
Mynd: Getty Images
David Ginola og John Barnes í leiknum fræga.
David Ginola og John Barnes í leiknum fræga.
Mynd: Getty Images
Stan Collymore skorar sigurmarkið.
Stan Collymore skorar sigurmarkið.
Mynd: Getty Images
Keegan varð að sætta sig við tap á sínum gamla heimavelli.
Keegan varð að sætta sig við tap á sínum gamla heimavelli.
Mynd: Getty Images
Roy Evans.
Roy Evans.
Mynd: Getty Images
Graham Fenton skoraði tvö fyrir Blackburn gegn Newcastle.
Graham Fenton skoraði tvö fyrir Blackburn gegn Newcastle.
Mynd: Getty Images
Southampton sigraði Manchester United 3-1.
Southampton sigraði Manchester United 3-1.
Mynd: Getty Images
Ummæli Ferguson eftir leik gegn Leeds vöktu athygli.
Ummæli Ferguson eftir leik gegn Leeds vöktu athygli.
Mynd: Getty Images
David May kom United á bragðið gegn Middlesbrough.
David May kom United á bragðið gegn Middlesbrough.
Mynd: Getty Images
Cantona fagnar eftir að titilinn var í höfn.
Cantona fagnar eftir að titilinn var í höfn.
Mynd: Getty Images
Enskir meistarar 1995-1996.
Enskir meistarar 1995-1996.
Mynd: Getty Images
Cantona var vinsæll hjá stuðingsmönnum Manchester United.
Cantona var vinsæll hjá stuðingsmönnum Manchester United.
Mynd: Getty Images
Mikil sigurhátíð var í Manchester.
Mikil sigurhátíð var í Manchester.
Mynd: Getty Images
Kevin Keegan mun seint gleyma tímabilinu 1995/1996.
Kevin Keegan mun seint gleyma tímabilinu 1995/1996.
Mynd: Getty Images
Úrslitaleiks ensku bikarkeppninnar vorið 1996 er fyrst og fremst minnst, með réttu eða röngu, fyrir þrennt: leiðindi, kremhvít Armani jakkaföt sem leikmenn Liverpool klæddust fyrir leikinn og sigurmark Erics Cantona sem sló botninn í, og var jafnframt svo lýsandi fyrir tímabilið 1995-96. Sjaldan eða aldrei hefur einn leikmaður haft jafn mikil áhrif á titilbaráttu og Cantona þetta tímabilið. Við fyrstu sýn virðast 14 mörk í 30 deildarleikjum hjá framherja í meistaraliði ekki vera ástæða til að slá upp veislu – Frakkinn var aðeins í 9.-11. sæti yfir markahæstu menn deildarinnar – en Cantona virtist ekki nenna að skora mörk nema þau væru mikilvæg. Hann skoraði alls fimm sigurmörk, allt í 1-0 sigrum United, og fjögur jöfnunarmörk og þá eru ótaldar allar þær stoðsendingar sem hann átti. Í ensku bikarkeppninni skoraði hann fjögur mörk til viðbótar við sigurmarkið í úrslitaleiknum.

Tölfræðin ein og sér nær þó ekki utan um mikilvægi hans fyrir Manchester United. Cantona var maður fárra orða, en sjálföryggi hans, sigurvilji og æfingaharka smituðu út frá sér og þessir eiginleikar, auk knattspyrnuhæfileikanna, gera hann sennilega að áhrifamesta leikmanni sem hefur klæðst búningi Manchester United. Þegar hann kom til liðsins í nóvember 1992 hafði United ekki orðið Englandsmeistari í aldarfjórðung – á þeim fimm árum sem hann var í herbúðum félagsins vann það deildina í fjórgang. „Ef það var einn leikmaður, einhvers staðar í heiminum, sem var skapaður fyrir Manchester United, þá var það Cantona“, sagði Ferguson seinna um sinn mann.

Snilligáfan er þó oft dýru verði keypt. Cantona var afar sérstakur, ráðgáta í mannslíki, og gat verið brjálaður í skapinu. Það kom hvergi betur í ljós en í janúarlok 1995 þegar hann snappaði á Selhurst Park og réðist á stuðningsmann Crystal Palace, Matthew Simmons að nafni. Hann hafði átta mánaða bann frá knattspyrnuiðkun, tveggja vikna fangelsisvist (dómnum var seinna breytt í 120 klukkustunda samfélagsþjónustu), háar sektir og almenna álitshnekki upp úr krafsinu.

Eftir miklar vangaveltur um framtíð Cantona – Ferguson tókst að sannfæra hann um að vera áfram í Manchester á neyðarfundi á yfirgefnun veitingastað í París, þangað sem þjálfaranum var ekið á mótorhjóli – sneri hann aftur á fótboltavöllinn þann 1. október 1995 í leik gegn Liverpool á Old Trafford. Það var fyrsti kaflinn í endurkomu og jafnframt endurlausn Cantona. Tímabilið 1995-96 var hann ekki einungis að hjálpa Manchester United að vinna fótboltaleiki heldur einnig að reisa orðspor sitt við. Og honum varð vel ágengt í þeim efnum þótt sá svarti blettur sem sparkið á Selhurst Park setti á hans feril máist aldrei af.

Frammistaða Cantona var þó ekki það eina sem stóð upp úr tímabilið 1995-96, sem er vafalaust eitt af þeim skemmtilegustu og eftirminnilegustu í rúmlega tuttugu ára langri sögu ensku úrvalsdeildarinnar (í topp fimm ásamt ´94-95, ´98-99, ´07-08 og ´11-12). Þar spilar margt inn í: 4-3 leikurinn milli Liverpool og Newcastle; tvö frægustu ummælin í sögu deildarinnar: „You can‘t win anything with kids“ og „I would love it if we‘d beat them! Love it!“; og síðast en ekki síst spennandi toppbarátta sem stóð, lengst af, á milli þriggja framúrskarandi liða: Cantona og krakkanna, skemmtikrafta Kevins Keegan og Krydddrengjanna í Liverpool.

Það dró strax til tíðinda í fyrstu umferð, þar sem segja má að tónninn fyrir tímabilið hafi verið sleginn. Manchester United mætti til leiks með nokkuð breytt lið frá tímabilinu áður; um sumarið hafði Alex Ferguson selt þrjá leikmenn, Mark Hughes, Paul Ince og Andrei Kanchelskis, og í stað þess að fylla í þeirra skörð með aðkeyptum leikmönnum ákveðið að gefa ungum leikmönnum úr unglingastarfi félagsins aukin tækifæri. Sitt sýndist hverjum um þessa aðferð og efasemdaraddirnar fengu byr undir báða vængi eftir öruggan 3-1 sigur Aston Villa – sem síðan þá hefur ekki unnið United á heimavelli, þótt það sé víst til að breytast á þessu tímabili – á mjög ungu United-liði í fyrsta leik.
Meðal málsmetandi manna sem tjáðu sig um stöðuna á Old Trafford eftir leikinn var Alan Hansen, sparkspekingur í Match of the Day: „Það eru vandamál á þeim bænum“ sagði Hansen. „Kannski ekki meiriháttar vandamál, þrír leikmenn hafa auðvitað yfirgefið liðið. Kúnstin er alltaf að kaupa þegar þú ert sterkur, svo hann [Ferguson] þarf að kaupa leikmenn. Þú vinnur ekkert með krökkum“.

Hansen hefur aldrei fengið að gleyma þessum orðum – honum til hróss virðist hann að hafa húmor fyrir þeim og háðsglóðum á hans kostnað þeim tengdum – en það var sannleikskorn í orðum hans. Ferguson viðurkennir það í fyrri, og mun betri, ævisögu sinni og það sama gerir Paul Scholes í heimildarmyndinni „The Class of ´92“ (sem er brilljant): „Þú vinnur ekkert með krökkum“, segir Scholes í myndinni. „Hann hafði rétt fyrir sér. Þú vinnur ekkert með krökkum. Við unnum vegna þess að við vorum hluti af liði sem innihélt Roy Keane. Og við höfðum Bruce, Pallister, við höfðum alla þessa frábæru, reyndu leikmenn sem hjálpuðu ungu strákunum í gegnum tímabilið“.

Menn voru þó full fljótir að lýsa yfir neyðarástandi á Old Trafford. Ferguson var vissulega að taka mikla áhættu – Hughes, Ince og Kanchelskis höfðu átt stóran þátt í velgegni United á undanförnum árum og liðið hafði verið hársbreidd frá því að vinna tvöfalt tímabilið á undan (og hefði gert það hefði Cantona verið með), svo það var ekkert sem öskraði beinlínis á breytingar – en þessir „krakkar“ sem fengu traustið hjá honum voru engir venjulegir krakkar. Þetta var ´92 árgangurinn svokallaði: Ryan Giggs, Nicky Butt, David Beckham, Scholes og Neville bræðurnir, ein besta kynslóð leikmanna sem hefur komið fram á Englandi.

Þessir drengir voru skólaðir af Eric Harrison, voru með rétta hugarfarið, höfðu spilað lengi saman og unnið saman (FA Youth Cup 1992), og voru auk þess í rétta umhverfinu til að blómstra, með eldri og reyndari menn – Bruce, Schmeichel, Keane, Pallister, Irwin og Cantona – sér til halds og trausts. Það var kannski verið að henda þeim út í djúpu laugina, en þeir voru allavega með kút og kork. Og svo var staðreyndin sú að flestir þessara drengja bjuggu yfir talsverðri reynslu miðað við aldur. Giggs hafði verið í aðalliði United frá 1991 og Butt, Scholes og Gary Neville höfðu hver um sig leikið í kringum þrjátíu leiki tímabilið á undan, auk þess sem Giggs og Gary Neville höfðu leikið A-landsleiki. Í raun voru það bara Beckham og Phil Neville sem gátu talist nýliðar.
Ferguson og liðsmenn hans náðu fljótt áttum eftir tapið fyrir Villa og unnu átta af næstu tíu leikjum og gerði tvö jafntefli. Kastljós fjölmiðlanna beindist þó fljótlega frá Old Trafford og í norður, til Newcastle sem fór liða best af stað í deildinni. Skjórarnir unnu níu af fyrstu tíu leikjunum og tóku toppsætið snemma traustataki.

Uppgangur Newcastle á síðustu árum hafði verið ótrúlegur, en það voru ekki nema fjögur ár eða svo síðan félagið var í messi, innan vallar sem utan. Newcastle var nálægt fallsætunum í 2. deildinni og var auk þess skuldum hlaðið. Kaupsýslumanninum Sir John Hall rann þá blóðið til skyldunnar og skipulagði yfirtöku á félaginu. Þjálfarinn Ossie Ardiles var rekinn í febrúar 1992 og við starfi hans tók Kevin Keegan, sem hafði verið vinsæll leikmaður hjá Newcastle á árum áður. Keegan tókst að bjarga Skjórunum frá falli í 3. deild í lokaumferðinni og tryggði um leið framtíð félagsins sem hefði að öllum líkindum farið á hausinn við fall.

Eftir björgunarafrek Keegans fór hagur Newcastle smám saman að vænkast; Hall og félagar réttu fjárhag félagsins af, ráðist var í endurbætur á St James‘ Park og vorið 1993 tryggði liðið sér sæti í Úrvalsdeildinni. Það var orðið kátt á Tyneside á ný og ekki minnkaði gleðin tímabilið 1993-94. Keegan fékk ríkulega úthlutað fé til leikmannakaupa og meðal þeirra sem fengnir voru til liðsins var Peter Beardsley, sem sneri þar með aftur á sinn gamla heimavöll. Sóknarleikurinn var í fyrirrúmi hjá Keegan, með Beardsley og Andy Cole í broddi fylkingar, og svo fór að lokum að nýliðarnir höfnuðu í þriðja sæti og tryggðu sér um leið þátttöku í Evrópukeppni félagsliða. Hafi Keegan verið vinsæll sem leikmaður hjá Newcastle, þá var hann nú tilbeðinn af stuðningsmönnum félagsins. Og stjórnarmenn Newcastle voru ekki síður ánægðir með Keegan og gerðu tíu ára samning við hann um mitt tímabilið.

Newcastle hélt áfram þar sem frá var horfið í upphafi tímabils 1994-95. Liðið vann sex fyrstu leiki sína og sat um tíma á toppi deildarinnar. En eftir tap gegn Athletic Bilbao í Evrópukeppni félagsliða fór að halla undan fæti og Newcastle þurfti á endanum að sætta sig við sjötta sætið í deildinni. Stefnan var þó enn sett hátt og sumarið 1995 hélt Keegan á ný í verslunarleiðangur. Les Ferdinand var keyptur frá QPR til að fylla skarð Cole sem hafði verið seldur til Man Utd í janúar, David Ginola kom frá PSG, markvörðurinn Shaka Hislop frá Reading og Keegan gerði svo Warren Barton að dýrasta varnarmanni Englands (ekki grín) þegar hann reiddi fram fjórar milljónir fyrir þjónustu hans. Það þurfti því varla að velkjast í vafa um markmið Newcastle; titilinn átti að koma aftur á St James‘ Park eftir um 70 ára bið. Og byrjunin gaf, eins og áður sagði, fögur fyrirheit.

Sóknarleikurinn var enn aðalsmerki Newcastle. Ginola og Ferdinand byrjuðu vel og smullu eins og flís við rass við leikstíl liðsins. Beardsley var þó eftir sem áður gangverkið í leik liðsins, en að hans mati toppaði hann sem leikmaður þetta tímabilið. Beardsley bjó yfir þeim einstaka hæfileika að gera hvern þann sem hann spilaði með í framlínunni hverju sinni að betri leikmanni, en fáir leikmenn hafa myndað jafn mörg og frábær sóknarpör og Beardsley gerði, með Keegan, Gary Lineker, John Aldrigde, Ian Rush, Cole og Ferdinand.

Eins og áður var sagt sneri Cantona aftur í leik Manchester United og Liverpool þann 1. október á Old Trafford. Og það sem gerðist í þeim leik var allt voða fyrirsjáanlegt – Cantona stal sviðsljósinu. Hann lagði upp fyrra mark United fyrir Nicky Butt, Robbie Fowler svaraði með tveimur glæsilegum mörkum áður en Cantona jafnaði leikinn úr vítaspyrnu á 71. mínútu. Eftir markið sýndi hann svo dans á súlu. Þetta var fyrsta stigið sem hann tryggði United á tímabilinu og ekki það síðasta. Hilmir hafði snúið heim. Og það með stæl.

Hvað Fowler varðar, þá var leikurinn á móti United lýsandi fyrir tímabilið sem hann átti. Hann skoraði gegn hverjum sem var, hvar sem var og hvernig sem var. Alls urðu mörkin 36 á tímabilinu, þar af 28 í deildinni. Það var þó ekki nóg til tryggja honum markakóngstitilinn sem féll í skaut Alans Shearer sem skoraði 31 mark fyrir ríkjandi meistara Blackburn Rovers sem buðu upp á verstu titilbaráttu í sögu úrvalsdeildarinnar (þótt United sé líklegt til að veita þeim samkeppni um þann vafasama heiður á þessari leiktíð) og enduðu í sjöunda sæti. Fowler var hins vegar útnefndur besti ungi leikmaður úrvalsdeildarinnar annað árið í röð.

Fowler hafði verið í álíka markastuði tímabilið á undan, sem var jafnframt fyrsta heila tímabil Liverpool undir stjórn Roy Evans. Fjórða sætið og deildarbikartitill var uppskera þess og svo virtist sem Liverpool hefði tekið skref inn í ljósið á ný eftir Souness-árin. Ráðningin á Evans markaði afturhvarf til gamalla gilda, „Boot-Room“ hugmyndafræðinnar svokölluðu sem hafði reynst félaginu svo vel svo lengi. Evans fór hins vegar aðrar og óhefðbundnari leiðir – þ.e. á enskan mælikvarða, þar sem allt sem ekki hét 4-4-2 var álíka framandi og túristi í Norður-Kóreu – í vali á leikkerfi og lét Liverpool spila 3-5-2. Hann fann Steve McManaman stað fyrir framan Jamie Redknapp og John Barnes, sem hafði fært sig af kantinum og inn á miðjuna eftir að meiðsli rændu hann hraðanum. Frammi með Fowler var svo Stan Collymore sem hafði verið keyptur á metfé eftir að hafa slegið í gegn með Nottingham Forest tímabilið á undan.

Tímabilið 1995-96 byrjaði þokkalega hjá Liverpool, en í nóvember hljóp allt í baklás. Aðeins eitt stig kom í hús af tólf mögulegum og eftir tap gegn Middlesbrough sat Liverpool í sjöunda sæti og titilbaráttan virtist á þeim tíma fjarlægur draumur. Í desember fór liðið hins vegar á mikið flug og lék fimmtán leiki í röð án þess að tapa í deildinni. Fowler tryggði Liverpool m.a. sigur á United á Anfield með tveimur mörkum og skoraði svo önnur þrjú í sigri á Arsenal á Þorláksmessu. Leeds voru sömuleiðis rassskeltir 5-0 á heimavelli, en hápunktinum var líklega náð á Villa Park í byrjun mars þegar Liverpool skoraði þrjú mörk, Fowler (2) og McManaman, á fyrstu átta mínútunum gegn góðu liði Aston Villa, sem endaði tímabilið í fjórða sæti og vann jafnframt deildarbikarinn.

Hvað erkifjendurna í Manchester United varðaði, þá sátu þeir í öðru sæti eftir fjóra sigra í fimm leikjum í kjölfar endurkomuleiks Cantona gegn Liverpool. Þá tók hins vegar við vondur kafli, en á tímabilinu frá 27. nóvember til 1. janúar lék liðið níu leiki, vann aðeins tvo, gerði fjögur jafntefli og tapaði þremur. Botninum var náð á fyrsta degi ársins 1996 þegar United sótti Tottenham heim á White Hart Lane og tapaði 4-1 í leik þar sem Spurs-menn fengu góða hjálp frá William Prunier, frönskum varnarmanni sem var í láni hjá United sökum mikilla meiðsla í vörn liðsins. Leikurinn gegn Spurs var hans annar fyrir félagið og jafnframt sá síðasti. Hagur United tók smám saman að vænkast á nýju ári, ekki síst vegna bætts varnarleiks. Eftir leikinn gegn Spurs hafði liðið fengið á sig 27 mörk í 22 leikjum, en þá var skellt í lás. Í þeim sextán leikjum sem eftir voru fékk United aðeins á sig átta mörk og hélt tólf sinnum hreinu.

Þrátt fyrir betra gengi voru rauðu djöflarnir enn talsvert langt á eftir Keegan og hans mönnum. Newcastle hikstaði aðeins í desember, þar sem liðið gerði 3-3 jafntefli gegn Wimbledon og laut í lægra haldi fyrir Chelsea og United, en hafði þrátt fyrir það tíu stiga forystu á United um jólin. Fimm sigurleikir í röð í upphafi árs styrku stöðu Newcastle enn frekar og þann 21. janúar, þegar öll toppliðin höfðu leikið 23 leiki, voru Skjórarnir með tólf stiga forystu á United og Liverpool. Og til að viðhalda þessu góða gengi fjárfesti Keegan í framherjanum Faustino Asprilla frá Parma. Sá kólombíski lét strax til sín taka inn á vellinum, kom inn á í sínum fyrsta leik gegn nágrönnunum í norðri, Middlesbrough, og átti stóran þátt í endurkomusigri Newcastle. Forysta Skjóranna á United var á þessum tímapunkti níu stig, auk þess sem liðið átti leik til góða.

Eftir leikinn gegn Boro fór Newcastle-lestin hins vegar út af sporinu. Liðið tapaði fyrir Harry Redknapp og lærisveinum hans í West Ham og gerði svo 3-3 jafntefli við falllið Manchester City í farsakenndum leik þar sem Newcastle jafnaði í þrígang. Asprilla – ekki beint poster-boy fyrir andlegt heilbrigði – stal sviðsljósinu í þeim leik, skoraði eitt mark, lagði upp annað og olnbogaði að lokum Keith Curle, leikmann City, í andlitið sem kostaði hann eins leiks bann og 10.000 pund.

Á sama tíma var Manchester United á miklu flugi og hafði unnið fimm leiki í röð, m.a. 6-0 útisigur á Bolton, þegar liðin mættust í toppslag á St James‘ Park 4. mars. Fyrir leikinn var forskot Newcastle, sem enn átti leik inni, á United fjögur stig. Liverpool, sem hafði unnið Aston Villa deginum áður, sat í 3. sætinu, sex stigum á eftir Newcastle og átti einnig leik til góða á United.

Newcastle byrjaði toppslaginn á leiftursókn og hefðu líklega getað klárað titilbaráttuna í fyrri hálfleik ef ekki hefði verið fyrir Peter Schmeichel og stórleik hans í marki United (sem svipaði um margt til frammistöðu Tim Flowers í 1-0 sigri Blackburn á Newcastle á álíka mikilvægum tímapunkti í titilbaráttu síðasta tímabils). Asprilla lék sér að Gary Neville, sem minnist þessa leiks með hryllingi í ævisögu sinni, og setti Ferdinand tvívegis einan í gegn á fyrstu fimm mínútum leiksins en Schmeichel varði. Þessar risavörslur komu líklega í veg fyrir að titilvonir United yrðu að engu þá og þegar. Philippe Albert skaut svo í slána úr aukaspyrnu, Asprilla skallaði frákastið aftur að markinu, Gary Neville hitti ekki boltann sem datt fyrir fætur Ferdinands sem skaut upp í stúku og United slapp með markalausa stöðu inn í hálfleikinn.

Það átti eftir bíta Newcastle í skottið að hafa ekki skorað í fyrri hálfleiknum. Á 51. mínútu átti United eina af sínum fáu markverðu sókn í leiknum. Keane vann boltann og sendi hann yfir á Phil Neville á vinstri kantinum. Hann fór inn á völlinn og sendi í átt að D-boganum. Giggs hljóp yfir boltann sem barst til Cole sem sneri, lék á tvo varnarmenn og sendi á Phil Neville utarlega í vítateignum vinstra megin. Hann tók eina snertingu og sendi svo boltann yfir á fjærstöng þar sem Cantona var einn og óvaldaður, tók boltann á lofti og skoraði. United hélt Newcastle í skefjum það sem eftir var leiks og innbyrti að lokum risastóran sigur. Hann reyndist vera snúningspunkturinn á tímabilinu.

Keegan var þó að venju brattur eftir leikinn: „Ég sagði við strákana að við værum enn á toppnum og ef við ynnum leikinn sem við ættum inni værum við með fjögurra stiga forystu. Ég held við höfum sannað það í kvöld ... ef þú horfir á fyrri hálfleikinn, ef þú horfir á leikinn í heild og segir að annað liðið sé betra en hitt ... ég held að við höfum tvö frábær lið og nú er Liverpool ekki langt undan. Við höfum þrjú frábær lið og hvert þeirra verður verðugur meistari“.

Þótt Newcastle væri enn, eins og Keegan sagði, með eins stigs forskot og ætti leik inni, var United komið með yfirhöndina í toppbaráttunni, a.m.k. sálrænt séð. „Við vorum ekki að spila vel en gripum tækifærið og eftir það vissu allir að Newcastle væri aldrei að fara að vinna deildina“, segir Gary Neville í ævisögu sinni. „Þeir hefðu átt að vera 3-0 yfir og með alla stjórn á leiknum en þá skorti hæfni til að klára dæmið“.

Leikurinn gegn Newcastle markaði upphafið að einu magnaðasta „rönni“ leikmanns sem um getur. Cantona hafði hafið eins manns krossferð í átt að titlinum. Í næsta leik tryggði hann United stig með marki á lokamínútunni gegn QPR og skoraði svo glæsilegt sigurmark í 1-0 sigri á Arsenal á Old Trafford. Cantona endurtók leikinn á móti Tottenham, í borgarslagnum gegn City skoraði hann fyrsta mark United og lagði upp hin tvö í 3-2 sigri og skoraði loks eina mark leiksins gegn Coventry. Í þessum sex leikjum kom Cantona með beinum hætti að öllum átta mörkum United, skoraði sex þeirra sjálfur og tryggði liði sínu fjóra 1-0 sigra. Ótrúlegur kafli hjá ótrúlegum leikmanni.

Þáttur Schmeichels í þessu góða gengi var ekki síður stór. Daninn stóri átti sitt besta tímabil á ferlinum og reyndist þyngdar sinni virði í gulli. Og eftir á að hyggja lá kannski helsti munurinn á United og keppinautum þeirra, Newcastle og Liverpool, í markvörðunum. Pavel Srníček/Shaka Hislop og David James, eins og frábær og hann gat verið, stóðu Schmeichel, besta markmanni heims á þessum tíma, einfaldlega langt að baki. Það eru til dæmi þess að lið vinni titla með mjög mistæka eða jafnvel slaka markmenn – United gerði það ´99-00 (Bosnich/van der Gouw/Taibi) og ´02-03 (Barthez) – en tímabilið ´95-96 hafði munurinn á markvörðum toppliðanna afgerandi áhrif.

Eftir tapið gegn United fór að halla enn frekar undan fæti hjá Newcastle. Öruggur sigur vannst reyndar á West Ham í næsta leik, en honum fylgdi 2-0 tap fyrir Arsenal á Highbury. Við það missti Newcastle toppsætið í hendur Ferguson og félaga eftir að hafa setið þar allt frá því í fyrstu umferð. Fyrir leikinn við Liverpool á Anfield þann 3. apríl voru Skjórarnir í öðru sæti með 64 stig, þremur stigum á eftir United, en áttu tvo leiki til góða og voru enn með örlögin í sínum höndum. Þremur dögum fyrir umræddan leik hafði rauði herinn tryggt sér sæti í úrslitaleik ensku bikarkeppninnar, en hafði hins vegar tapað síðasta leik sínum í deildinni fyrir Nottingham Forest, sem var jafnframt fyrsti tapleikur liðsins á árinu 1996. Liverpool sat í þriðja sæti með 59 stig og átti jafnframt leik inni á United.

Leikur Liverpool og Newcastle þennan dag hefur yfir sér goðsagnakenndan blæ. Hann er oft nefndur sem besti leikur í sögu ensku úrvalsdeildarinnar og hlaut t.a.m. verðlaun sem slíkur á tíu ára afmæli deildarinnar árið 2003. Martin Tyler, leiklýsandi á Sky, hefur talað um að þetta sé besti leikur sem hann hefur lýst á sínum langa ferli og Andy Gray, meðlýsandi Tylers, sagðist skömmu eftir leikinn efast um að hann ætti eftir lýsa betri leik, a.m.k. næstu tíu árin.

Hvort leikurinn sé sá besti eða ekki skal ósagt látið – menn hafa ólíkar skoðanir á því hvað er góður fótboltaleikur – en það er fótur fyrir öllu lofinu. Þetta aprílkvöld 1996 buðu tveir meistarakanditatar, á mjög mikilvægum tímapunkti á tímabilinu, upp á skemmtilegan, spennandi, dramatískan, hraðan, sveiflukenndan og fyrst og síðast eftirminnilegan leik.

Þetta byrjaði allt strax á annari mínútu þegar Fowler kom Liverpool yfir með skalla eftir fyrirgjöf Collymores frá vinstri. Forystan entist þó aðeins í átta mínútur; Asprilla fékk boltann eftir innkast, fíflaði Neil Ruddock og sendi á Ferdinand sem skoraði með skoti úr vítateignum. Newcastle komst svo yfir fjórum mínútum seinna þegar Ferdinand fékk boltann við miðjuhringinn, sneri og sendi utanfótarsendingu í svæðið vinstra megin, í hlaupaleiðina hjá Ginola. Vörn Liverpool var illa staðsett, Frakkinn átti greiða leið að markinu og skoraði framhjá James.

Eftir þessa brjáluðu byrjun róaðist leikurinn aðeins. Liverpool var meira með boltann, hreyfðu hann oft á tíðum glæsilega og voru nær því að skora, þótt Newcastle-menn væru alltaf hættulegir í skyndisóknum, þá sérstaklega Asprilla, með allan sinn hraða og tækni. Redknapp átti gott fyrir utan teig sem fór framhjá eftir langa og frábæra sóknaruppbyggingu, Fowler skaut nokkru seinna framhjá eftir aukaspyrnu Redknapps og síðasta færi fyrri hálfleiks átti svo Fowler þegar hann missti naumlega af boltanum eftir fyrirgjöf Jasons McAteer frá hægri og skalla McManamans fyrir markið.

Seinni hálfleikurinn byrjaði með álíka látum og sá fyrri. Robert Lee komst strax einn í gegn en James varði skot hans. Liverpool-menn náðu fljótt áttum, héldu boltanum vel og komust nálægt því að skora þegar John Scales skallaði boltann á/í Fowler sem stóð nánast á marklínunni, en náði ekki stýra boltanum yfir hana. Honum urðu þó ekki á nein mistök skömmu síðar þegar hann skoraði með föstu skoti eftir sendingu McManamans frá hægri. Sá síðarnefndi átti stórkostlegan leik; sífellt á hreyfingu og duglegur að finna sér pláss á hættulegum stöðum, alltaf skapandi og hættulegur.

Gleði Liverpool-manna entist ekki lengi. Beardsley átti góða sendingu sem tók bæði Redknapp og Barnes út úr leiknum, Lee tók við boltanum aleinn á miðjunni og sendi frábæra stungusendingu á milli Ruddocks og Steve Harkness á Asprilla sem var kominn einn í gegn. Sá kólombíski kláraði færið í fyrsta, með smekklegu utanfótarskoti framhjá James sem var kominn langt út úr markinu. Liverpool, sem þurfti nauðsynlega að vinna leikinn til að halda titilvonum sínum á lífi, jafnaði um tíu mínútum seinna. McAteer átti þá frábæra fyrirgjöf frá hægri í svæðið á milli Srníček og varnarmanna Newcastle og á Collymore sem setti boltann í netið af stuttu færi.

Liverpool hélt áfram leit sinni að sigurmarkinu. Steve Howey var nálægt því að setja boltann í eigið net eftir fyrirgjöf McManamans, áður en Newcastle fékk annað dauðafæri sitt í seinni hálfleiknum. Albert átti þá langa sendingu fram völlinn á Ferdinand sem var einn gegn Harkness, hristi hann af sér og komst einn gegn James sem varði vel. Barnes braut sér síðan leið í gegn hægra megin í vítateig Newcastle og átti skot sem Srníček varði.

Evans setti Ian Rush – á sinni síðustu leiktíð hjá Liverpool – inn á þegar fimm mínútur lifðu leiks og hann átti þátt í sigurmarkinu, þar sem Boot-Room hugmyndafræðin, sem legið hafði spilamennsku Liverpool til grundvallar allt frá dögum Bills Shankly (mínus Souness-árin), birtist í sinni tærustu mynd. Barnes fékk boltann inn á eigin vallarhelmingi, sendi á Scales sem lék nokkra metra áfram og sendi svo á Rush. Hann lagði boltann aftur á Barnes sem sendi á Scales og fékk boltann aftur, Barnes sendi á Rush, Rush á Barnes, Barnes á Rush, Barnes lagði boltann fyrir sig og sendi hann svo út á Collymore vinstra megin í vítateignum. Stan the Man, seinna mótleikari Sharon Stone í Basic Instinct 2, tók eina snertingu og skaut boltanum með vinstri, á nærstöngina og framhjá Srníček. Markið kom á annarri mínútu uppbótartíma. Keegan var öllum lokið og féll fram á auglýsingaskiltin. Skömmu síðar flautaði dómarinn Mike Reed til leiksloka: Liverpool 4 – Newcastle 3.

Evans var eðlilega sáttur með sigurinn, en sagði jafnframt um að ekkert lið gæti unnið titilinn með svona opnum leik og talaði um kamikaze-varnarleik í því samhengi. Keegan viðurkenndi að staðan væri orðin erfiðari, en ítrekaði að hann myndi ekki breyta leikstíl liðsins. Þetta var eina leiðin sem Keegan þekkti og eina leiðin sem hann ætlaði að fara. Keegan var vissulega naívur, en það var þessi gung-ho leikstíll sem hafði skilað Newcastle á þann stað sem það var á.

Ekkert lið getur hins vegar haldið úti sama sóknarleik og Newcastle gerði á fyrra hluta tímabilsins, og þegar mesti krafturinn fór úr sóknarleiknum gátu þeir ekki treyst á varnarleikinn sem var álíka lekur og íslenska innanríkisráðuneytið. Öfugt við United gátu Skjórarnir ekki skellt í lás þegar þess gerðist þörf, sem kom hvergi betur í ljós en í stöðunni 3-2 gegn Liverpool. Ginola talaði seinna um að Newcastle hefði án efa unnið titilinn hefði þeim tekist að halda 3-2 stöðunni. Það væri hins vegar synd að segja að Steve Watson, Howey, Barton, taglmennið Darren Peacock, John Beresford og Albert (eins classy leikmaður og hann var) væru varnarmenn dauðans.

Það hefur einnig verið vinsælt að kenna Asprilla um ófarir Newcastle á seinni hluta tímabilsins. Í „við-nánari-umhugsun“ grein bendir Rob Smyth á að sú skýring sé alltof einföld, aðrir þættir en Asprilla hafi vegið þyngra í hruni Newcastle. Hann bendir á að þeim kólombíska hafi verið ætlað að koma með nýtt blóð inn í lið sem var þegar farið að dala, og hann hafi byrjað að krafti og spilað vel fram að, og í, Liverpool-leiknum – í fyrstu sjö leikjunum skoraði Asprilla þrjú mörk og átti fimm stoðsendingar – en síðan gefið eftir. Smyth segir jafnframt að engar haldbærar sannanir séu fyrir því að Asprilla hafi haft slæm áhrif á móralinn í Newcastle-liðinu eins og svo oft hefur verið haldið fram.

Hvað sem lélegri vörn og Asprilla leið, þá voru örlögin í fyrsta sinn komin úr höndum Newcastle-manna eftir tapið fyrir Liverpool. Rauði herinn hafði á hinn bóginn með sigrinum skráð sig til þátttöku í toppbaráttunni – liðið var enn í þriðja sæti, en aðeins tveimur stigum á eftir Newcastle (sem átti leik inni) og fimm á eftir United, auk þess að vera með bestu markatöluna. Titildraumurinn lifði þó ekki lengi. Liverpool skráði sig úr toppbaráttunni þremur dögum seinna með 1-0 tapi gegn Coventry á útivelli. Noel Whealan skoraði sigurmarkið eftir að James hafði misst af fyrirgjöf. Á meðan unnu United og Newcastle sína leiki. Liverpool var því fimm stigum á eftir Keegan og co. og átta á eftir Cantona og co. þegar aðeins fimm leikir voru eftir. Þeir unnu tvo þeirra og gerðu þrjú jafntefli og enduðu að lokum í þriðja sæti með 71 stig sem var besti árangur liðsins frá tímabilinu 1990-1991. Manchester United og Newcastle voru því ein eftir um hituna.

Í næstu umferð versnaði staða Newcastle til muna þegar liðið tapaði 2-1 fyrir Blackburn á Ewood Park. Skjórarnir voru með forystu þegar fjórar mínútur lifðu leiks, en misstu hana niður. Varamaðurinn Graham Fenton skoraði tvö mörk á þremur mínútum, það seinna eftir grínvarnarleik hjá Peacock og Beresford, og tryggði sínum mönnum sigur. Tapið var það fimmta hjá Newcastle í síðustu átta leikjum, en þessi slæmi kafli kom svo til á sama tíma og Cantona var upptekinn við að vinna leiki fyrir United.

En þegar öll sund virtust vera lokuð fyrir Keegan og hans menn tók toppbaráttan enn eina u-beygjuna. Í næstu umferð sótti United Southampton heim á The Dell – velli sem þeim gekk bölvanlega á á þessum árum – og þegar flautað var til hálfleiks voru heimamenn 3-0 yfir. Í hálfleiknum skipaði Ferguson sínum mönnum að skipta um búninga, en í fyrri hálfleiknum lék United í gráum (og æpandi ljótum) varabúningi sem liðið hafði aldrei unnið leik í. Búningaskiptin breyttu þó ekki niðurstöðu leiksins, Dýrlingarnir unnu að lokum 3-1 eftir sárabótarmark frá Giggs mínútu fyrir leikslok.
Daginn eftir vann Newcastle sigur á Aston Villa með marki frá Lee og minnkaði muninn á toppnum í þrjú stig og átti að auki leik til góða. Í næstu umferð unnu bæði liðin 1-0 sigra, Newcastle á Southampton og United á Leeds. Eftir leikinn fór Ferguson viðtal sem átti eftir að draga dilk á eftir sér: „Af hverju eru þeir [Leeds] ekki í efstu sex sætunum? Ég skil það ekki. Þeir eru með góða leikmenn og ef þeir hefðu leikið í samræmi við það væru þeir í topp sex. En fyrir suma þeirra virðist það vera mikilvægara en nokkuð annað að Manchester United vinni ekki deildina. Frá mínum bæjardyrum séð eru þeir að svíkja þjálfarann [Howard Wilkinson], það er það sem þetta er. En þegar kemur að leiknum við Newcastle muntu sjá muninn. Það er sorglegt að segja það. Ég er mjög vonsvikinn með Leeds“.

Með öðrum orðum þá ásakaði Ferguson leikmenn Leeds um að leggja sig meira fram gegn United en öðrum liðum, það myndi sjást á leik þeirra gegn Newcastle. Ósmekklegt? Já. Neðanbeltishögg? Sennilega. Það fannst Kevin Keegan allavega. Í næstu umferð, þann 28. apríl, tók United á móti Nottingham Forest á Old Trafford og vann stórsigur, 5-0. Beckham skoraði tvö mörk, Scholes, Giggs og Cantona eitt hver. Daginn eftir fór Newcastle á Elland Road og vann 1-0 sigur á Leeds-liði sem lagði sig fram, um það er ekki deilt. Staðan á toppnum hélst því óbreytt, nema hvað markatala United var orðinn mun betri, +35 gegn +30 hjá Newcastle sem átti enn leik inni við Nottingham Forest.

Það sem gerðist eftir leik Newcastle og Leeds var hins vegar mun eftirminnilegra en leikurinn sjálfur. Keegan fór í viðtal hjá Richard Keys og Andy Gray á Sky – og missti það. Gjörsamlega. Sjón er sögu ríkari: „I would love it if we‘d beat them! Love it!“. Svo mörg voru þau orð. Klassík. Eldist vel. Alltaf jafn fyndið. Keegan beit ekki aðeins á agnið, heldur gleypti það. Í fyrri ævisögu sinni spilar Ferguson sig saklausan og þvertekur fyrir að hafa ætlað að koma Keegan úr jafnvægi: „Ummæli mín þann 17. apríl höfðu ekkert með Kevin Keegan að gera; þeim var einungis beint til leikmanna Leeds“, segir hann. „En Kevin tók þau inn á sig og sprakk fyrir framan myndavélarnar eftir sigur hans manna á Leeds“.

Einmitt, alveg óvart. Helsti vígamaðurinn í sálfræðihernaði enska fótboltans sá sér ekki leik á borði til að rugla í hausnum á Keegan, óreyndari þjálfara sem margt benti til að þyldi ekki pressuna sem fylgdi titilbaráttunni? Held ekki. Það má reyndar deila um það hversu mikil áhrif þetta æði Keegans hafði í stóra samhengingu. Það hafði a.m.k. ekki úrslitaáhrif í toppbaráttunni þar sem Newcastle var svo gott sem búið að tapa titlinum á þessum tímapunkti; liðið þurfti að vinna báða leikina sem eftir voru með miklum mun og treysta á sama tíma á að United tapaði leiknum sem þeir áttu eftir. Þessi uppákoma var kannski fyrst og fremst táknræn. Ferguson, reynslunni ríkari eftir titilbaráttu síðustu fjögurra ára, hélt haus á meðan Keegan fór á taugum.

Þremur dögum eftir þessa uppákomu hélt Newcastle til Nottingham til að spila við heimamenn í Forest, leikinn sem þeir áttu inni á United. Beardsley kom gestunum yfir með glæsilegu marki eftir um hálftíma leik, en eins og svo oft á útivelli hélst þeim ekki á forystunni. Þegar korter lifði leiks missti David Batty – sem synd væri að segja að hefði komið sterkur inn í Newcastle-liðið eftir að hann kom frá Blackburn í mars – boltann á miðjunni. Ian Woan nýtti sér það, lék áfram og skoraði með fallegu skoti fyrir utan teig. Leikurinn endaði 1-1 og von Newcastle-manna um Englandsmeistaratitilinn var því orðin ansi veik.

Lokaumferðin fór fram þann 5. maí. United var þremur stigum á undan Newcastle og dugði jafntefli gegn Middlesbrough, undir stjórn Bryans Robson fyrrum fyrirliða United, á Riverside. Newcastle þurfti að treysta á sigur Boro, vinna sjálfir Tottenham og vinna í leiðinni upp þau sex mörk sem United var með í plús. Það þurfti því ansi mikið að ganga á ef titilinn átti að fara á Tyneside. Og það gerðist ekki. Eftir góða byrjun Boro komst United yfir þegar David May skallaði hornspyrnu Giggs í netið og þá var nokkuð ljóst hvernig færi.

Meira var ekki skorað í fyrri hálfleiknum en Cole bætti við marki á 54. mínútu eftir aðra hornspyrnu frá Giggs. Skömmu síðar kom Jason Dozzell Spurs yfir á St James‘ Park og þá var endanlega ljóst hvernig færi. Newcastle tókst að jafna á 71. mínútu þegar Asprilla lagði boltann á Ferdinand sem skoraði sitt 25. deildarmark á tímabilinu. Níu mínútum síðar gulltryggði Giggs sigur United með skoti í stöng og inn fyrir utan teig. 3-0 urðu lyktir leiksins á Riverside og 1-1 á St James‘ Park. United var því orðið Englandsmeistari í þriðja sinn á síðustu fjórum árum.

Eftir vonbrigði síðasta tímabils – þegar liðið missti af titlinum í síðustu umferð og tapaði bikarúrslitaleiknum – stóð Manchester United uppi sem sigurvegari á ný. Þetta var stór og persónulegur sigur fyrir Ferguson sem hafði tekist að endurnýja United-liðið án þess að það kæmi niður á árangrinum. Áhættan sem hann tók, sem reyndar var minni í augum þeirra sem þekktu til gróskunnar í unglingastarfi félagsins en þeirra sem stóðu fyrir utan, borgaði sig, bæði þetta tímabilið og til frambúðar. Krakkarnir stóðu undir ábyrgðinni sem hann setti á þeirra herðar og áttu eftir að vera í stóru hlutverki í sigursælu liði United næstu árin.

„Þetta var mikil áhætta. En hann [Ferguson] vissi hvað hann var að gera, og hann hafði rétt fyrir sér á endanum“, sagði Cantona í „The Class of ´92“. „Það var frábært fyrir mig að spila með þessari kynslóð og vinna titla með þeim, og taka þátt í að hjálpa þessum nýju og ungu leikmönnum“. Cantona naut þess að spila með þessum strákum og hann hafði jafnframt mikil áhrif á þá. „Við höfðum unnið titilinn með krökkum, þótt það sé engin spurning hver átti þar stærstan hlut að máli“, segir Gary Neville í ævisögu sinni. „Eric var stórkostlegur. Sem ungir leikmenn litum við upp til hans sem leiðtoga og hann vann svo marga leiki fyrir okkur. Liðsheildin skiptir öllu þegar þú ert að vinna titla, en tvisvar sinnum á mínum tíma hjá félaginu – að sjálfsögðu þetta ár [1996], sem og tímabilið 2006-07 með Cristiano Ronaldo – stóð maður í það mikilli þakkarskuld við einn leikmann að þér fannst nánast eins og þú þyrftir að gefa honum medalíuna þína. Þetta var titilinn hans Erics“.

Framlag Schmeichels var sömuleiðis ómetanlegt, en hann og Cantona stigu upp og lögðu grunninn að frábærum endaspretti United, sem vann 14 af síðustu 16 leikjum sínum. Sjö þeirra unnust 1-0, en Schmeichel grínaðist seinna með að þeir Cantona sem hefðu gert með sér samkomulag sem fæli í sér að hann myndi sjá um að halda hreinu og Frakkinn um að skora sigurmarkið.

Þeir félagar stóðu upp úr í því sem var jafnbesta lið ensku úrvalsdeildarinnar þetta tímabilið. Liverpool-liðið var mjög gott með Fowler í formi lífs síns og var líklega best spilandi af þeim þremur liðum sem börðust um titilinn. Vörnin var ekki frábær, en þó ekki jafn slök og oft hefur verið af látið – liðið fékk t.a.m. á sig færri mörk en United bæði tímabilin ´95-96 og ´96-97. James var sömuleiðis ekki sá áreiðanlegasti og gerði stór mistök á mikilvægum augnablikum (m.a. í bikarúrslitunum og í leiknum gegn Coventry), en Liverpool var sennilega bara tveimur til þremur góðum leikmönnum og aðeins meiri stöðugleika frá því að berjast um titilinn allt til loka.

Newcastle-liðið var spennandi og lengi vel óstöðvandi fram á við. Vörnin var hins vegar rekaviður og ekki treystandi til að verja forskot á mikilvægum augnablikum. Menn hafa eðlilega mjög skiptar skoðanir á Kevin Keegan. Hann var líklega of mikill rómantíker og of lítill raunsæismaður, taktískt naívur, fór á taugum og mistókst á endanum að vinna stóran titil, en undir stjórn hans náði Newcastle hæðum sem það hefur ekki náð síðan. Á þeim fimm árum sem hann var við stjórnvölinn á St James‘ Park fór Newcastle úr því að vera fallbaráttulið í 2. deild yfir í lið sem barðist um Englandsmeistaratitilinn, var uppáhald hins hlutlausa áhorfanda og gat laðað til sín alþjóðlegar stórstjörnur.

Það er svo alltaf spurning hvort á að líta svo á að Newcastle hafi tapað titlinum eða United unnið hann? Hvort á frekar að tala um meiri háttar klúður Skjóranna eða magnaða endurkomu United? Sennilega hvort tveggja. Newcastle-liðið fór hressilega út af sporinu á seinni hluta tímabilsins og það slæma gengi hefur með tíð og tíma orðið að einhverju frægasta og stórkostlegasta klúðri í titilbaráttu síðari tíma sem er ekki alveg sannleikanum samkvæmt. United missti niður álíka forskot tveimur árum síðar og Arsenal gerði það sama tímabilið ´02-03, en einhverra hluta vegna er sjaldnar talað um það. Ófarir Newcastle eiga samt ekki að skyggja á það afrek sem Manchester United vann tímabilið ´95-96. Keegan var allavega á þeirri skoðun. Gefum honum lokaorðið:
„Hamingjuóskir okkar fara til Manchester United, og stuðningsmanna þeirra. Það er mikið afrek að hafa náð okkur. Allir tala um hrun okkar, en það gerir of lítið úr afreki Man Utd, sem hafa, með alla þessa ungu leikmenn í liðinu, auk þriggja eða fjögurra reynslubolta, snúið því sem virtist vera ómöguleg staða sér í hag. Við töpuðum með sæmd, við óskum þeim til hamingju og þeir verða frábærir fulltrúar þessarar deildar í Meistaradeildinni. Ég vildi að við værum í þeirri stöðu, en svo varð ekki“.
Athugasemdir
banner
banner