Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn landsliðsþjálfari, er gríðarlega spenntur fyrir að vinna með leikmönnum íslenska landsliðsins.
Hann segist aldrei ætla að kvarta yfir því að fá fáa leiki eða fáar æfingar og gerir hann þær kröfur á elítuleikmenn landsliðsins að aðlagast fljótt.
Hann segist aldrei ætla að kvarta yfir því að fá fáa leiki eða fáar æfingar og gerir hann þær kröfur á elítuleikmenn landsliðsins að aðlagast fljótt.
„Ég hef alltaf talað fyrir því að í landsliði eru elítuleikmenn sem skilja elítutaktík. Ég er ekki hræddur um að þeir muni ekki skilja fljótt hvað ég vill fá frá þeim innan sem utan vallar," segir Arnar.
Honum líst gífurlega vel á leikmannahópinn sem hann er að fá í hendurnar.
„Þetta er eins og að vera í bestu leikfangaversluninni sem barn og geta valið bestu leikföngin hingað og þangað. Þetta er ótrúlega hæfileikaríkur hópur og ég skynja að hann sé mjög einbeittur á að ná árangri. Þetta eru toppstrákar fyrir utan völlinn líka og eru mjög metnaðargjarnir á að ná árangri fyrir þjóðina. Ég vænti mjög mikils af þeim og geri miklar kröfur á þá."
„Ég geri miklar kröfur á að þeir skilji mig, það er mikilvægt að leikmenn skilji þjálfarann sinn. Það er ekki alltaf þjálfaranum að kenna þegar leikmenn eru ekki valdir í liðið. Ég er þjálfari sem vil ná árangri og vel lið sem á að ná árangri. 'No hard feelings'. Það er eins og sagt var í Godfather, 'þetta er ekki persónulegt, þetta er bara buisness'. Leikmenn þurfa að leggja sig fram við að skilja mig á stuttum tíma til að gera sér vonir um að spila undir minni stjórn," segir Arnar.
Hef engar áhyggjur af því
Það hefur verið talað um að það vanti varnarmenn í liðið en Arnar hefur ekki áhyggjur af því.
„Ég hef engar áhyggjur af því. Til að ná árangri í fótbolta þarftu smá heppni og heppnin okkar mun felast í því að hafa alla leikmenn heila, sem flesta. Ég tel okkur vera með mjög góða varnarmenn. Mögulega þurfum við að stilla nokkra hluti svo þeir fái að njóta sín sem varnarmenn. Eins og gert var með Ragga og Sölva á sínum tíma," segir Arnar.
„Ég hef litlar áhyggjur af varnarleik Íslands."
Arnar segist vera með fullt af hugmyndum um leikkerfi en það sé ekki tímabært að ræða það núna. Hægt er að sjá viðtalið við hann í heild sinni í spilaranum hér að neðan.
Athugasemdir