Ange Postecoglou, stjóri Tottenham, var ekki ánægður með hvernig hans menn mættu í leikinn í 2-1 tapinu gegn Arsenal í nágrannaslag í ensku úrvalsdeildinni í gær.
Ástralinn var óánægður með hugarfar leikmanna og spilamennskuna í fyrri hálfleik þó liðið hafi tekið forystuna í gegnum Heung-Min Son.
Arsenal var ekki lengi að koma til baka. Liðið skoraði tvö mörk undir lok hálfleiksins og vann leikinn.
„Já, við hefðum getað fengið eitthvað út úr þessum leik en það er gagnslaust að tala um það þar sem við vorum ekki nálægt því að spila á því stigi sem við þurftum að vera að spila á.“
„Í fyrri hálfleik vorum við allt of passífir og leyfðum Arsenal að finna taktinn. Við náðum að hanga inn í þessu og gerðum það í raun allan leikinn. Þetta var aðeins betra í seinni hálfleik, en ekki nálægt því stigi sem við þurftum að vera á,“ sagði Ange.
Ange setti James Maddison og Brennan Johnson inn á í hálfleik og fannst honum liðið spila aðeins betur í síðari, en það var ekki nóg.
„Við þurftum að gera eitthvað. Það að við höfum mætt í fyrri hálfleikinn í svona stórum leik og verið svona passífir er óásættanlegt og við fengum að gjalda fyrir það.“
„Þegar við spilum vel og mætum liðunum þá er við upp á okkar besta en við gerðum það ekki í þessum leik.“
Brasilíski sóknarmaðurinn Richarlison sneri aftur á völlinn með Tottenham. Hann meiddist í byrjun tímabils og kom ekki aftur fyrr en í lok október, en meiddist stuttu síðar og verið frá síðan.
Hann spilaði síðustu mínúturnar í gær sem var hans áttundi leikur á tímabilinu.
„Það er gott að fá hann aftur. Hann hefur meira og minna misst af öllum tímabilinu, en meiðsli skipta engu máli ef við förum ekki í leikina með rétt hugarfar. Við gerðum það ekki í dag (gær),“ sagði stjórinn í lokin.
Athugasemdir