Jude Bellingham, leikmaður Real Madrid, var rekinn af velli í jafntefli liðsins gegn Osasuna í gær fyrir að bölva dómaranum en Bellingham segir að um misskilning hafi verið að ræða.
Bellingham bölvaði á ensku og dómarinn taldi að hann hafi verið að niðurlægja sig. Bellingham segir að svo sé ekki.
„Ég sagði ekkert slæmt við dómarann. Það er ljóst að það voru samskiptaörðugleikar. Þetta var tjáning eins og spænska orðið 'joder' (fokk). Afleiðingin er sú að hann skildi okkur eftir einum manni færri," sagði Bellingham.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Bellingham lendir í þessu. Hann fékk tveggja leikja bann fyrir svipað atvik í jafntefli gegn Valencia á síðustu leiktíð.
Bellingham var rekinn af velli undir lok fyrri hálfleiks í stöðunni 1-0 fyrir Real Madrid en Osasuna jafnaði metin með marki úr vítaspyrnu og þar við sat.
Athugasemdir