Guehi vill fara til Liverpool - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Kolo Muani til Newcastle?
   sun 16. mars 2025 13:00
Brynjar Ingi Erluson
Fjórfaldur Evrópumeistari lést eftir baráttu við illvígan sjúkdóm
Doris Fitschen
Doris Fitschen
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Doris Fitschen, sem varð fjórfaldur Evrópumeistari með þýska kvennalandsliðinu, er látin, 56 ára að aldri, eftir illvíga baráttu við langvinnan sjúkdóm en þetta kemur fram í tilkynningu frá þýska fótboltasambandinu í dag.

Fitschen spilaði sem varnarmaður á löngum ferli sínum en hún lék með Eintracht Wolfsburg, TSV Siegen, FFC Frankfurt í heimalandinu áður en hún kláraði ferilinn í Bandaríkjunum með Philadelphia Charge.

Miðvörðurinn vann þýska deildarmeistaratitilinn fjórum sinnum ásamt því að vinna bikarinn fimm sinnum.

Hún er tíunda leikjahæsta landsliðskona Þjóðverja frá upphafi með 144 leiki og skoraði þar að auki sextán mörk.

Fitschen var hluti af sigursælasta landsliði í sögu þjóðarinnar en á tíma hennar þar vann liðið Evrópumótið fjórum sinnum árin 1989, 1991, 1997 og síðan 2001 áður en skórnir fóru upp í hillu.

Á fyrsta Evrópumóti hennar var hún valin besti leikmaður mótsins og þá var hún í liði mótsins á HM árið 1999 er Þýskalands komst í 8-liða úrslit.

Hún og liðsfélagar hennar hlutu þá bronsverðlaun á Ólympíuleikunum í Ástralíu árið 2000.

Eftir ferilinn starfaði hún hjá þýska fótboltasambandinu þar sem hún spilaði stóra rullu í þróun kvennafótboltans og var síðan liðsstjóri kvennalandsliðsins sem vann tvö Evrópumót og Ólympíugull frá 2009 til 2016.


Athugasemdir
banner
banner