Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 16. maí 2021 10:00
Fótbolti.net
Helgi Sig í heitu sæti? - Stór nöfn á lausu
Helgi Sigurðsson eftir tapið gegn Fram.
Helgi Sigurðsson eftir tapið gegn Fram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV byrjar nýtt tímabil í Lengjudeildinni á tveimur tapleikjum en liðið beið lægri hlut gegn Fram á föstudaginn. Hafliði Breiðfjörð fjallaði um leikinn fyrir Fótbolta.net og í skýrslu sinni segir hann að Eyjamenn hafi verið yfirspenntir í leiknum.

Alls átta leikmenn liðsins fengu spjald í leiknum, þar á meðal Sigurður Arnar Magnússon sem var rekinn í sturtu á 17. mínútu.

„Það var mikið talað um þetta spennustig í kringum leikinn og eftir hann. Eyjamenn ætluðu sér hluti, Þeir enduðu síðasta tímabil illa og byrja þetta tímabil illa. Þetta er ein leið til að reyna að berja sér saman en hvort þetta sé rétta leiðin, ég veit ekki um það. Þetta er allavega ekki að ganga," segir Rafn Markús Vilbergsson, sérfræðingur Fótbolta.net, en rætt var um Lengjudeildina í útvarpsþættinum í gær.

Helgi Sigurðsson, þjálfari ÍBV, er talinn í heitu sæti. Gæti hann fengið reisupassann ef illa fer í næsta leik, gegn Aftureldingu í Mosfellsbæ?

„Það getur ekki annað verið, miðað við vonir og væntingar þessa fótboltaliðs. Auðvitað óskar maður engum að missa starfið sitt en þegar þú ert að þjálfa lið sem er búið að eyða svona miklum fjármunum í næst efstu deild," segir Tómas Þór Þórðarson.

„Ef hann fer í bingókúluleik gegn 'Maggi ball' og tapar þar þá er hann með núll stig eftir þrjá leiki. Ímyndaðu þér pressuna, það þarf ekki að vera stjórnin eða eigandinn, ímyndaðu þér pressuna frá fólki sem er að leggja pening í þetta."

Á samfélagsmiðlum hefur verið talsverð umræða um slæma byrjun ÍBV. Talað er um að Ólafur Jóhannesson, Rúnar Páll Sigmundsson og Ólafur Kristjánsson séu meðal manna sem eru án þjálfarastarfs.

„Hver veit með Heimi og Freysa? Það er nóg af nöfnum," bætir Tómas við en óvíst er hvort Heimir Hallgrímsson, sem er Eyjamaður, og Freyr Alexandersson verði áfram með Al Arabi í Katar.

Rafn Markús bendir á að möguleiki sé á góðri stigasöfnun hjá ÍBV í næstu umferðum og hlutirnir séu fljótir að breytast.

„Framundan eru leikir við Aftureldingu, Víking Ólafsvík og Kórdrengi. Við gætum talað saman í byrjun júní og allt í einu eru Eyjamenn komnir með níu stig. Þá er allt önnur staða uppi. En ef illa fer gegn Aftureldingu, sem voru frábærir gegn Ólsurum, þá gæti orðið heitt sæti," segir Rafn Markús.
Útvarpsþátturinn - Pepsi Max, Lengja og enski
Athugasemdir
banner
banner
banner