Þórður Þorsteinn Þórðarson hefur í vor sést með flautuna á lofti en hann hugsaði í vetur að hann gæti náð lengra sem dómari heldur en leikmaður. Þórður er 27 ára gamall og lék með ÍA, FH og HK á sínum ferli. Fyrir þessi þrjú félög á hann að baki 96 leiki í efstu deild og í þeim skoraði hann tíu mörk.
Fótbolti.net ræddi við Þórð í dag og spurði hann út í þá ákvörðun að hella sér út í dómgæslu. Hann er í vor búinn að dæma nokkra leiki.
Fótbolti.net ræddi við Þórð í dag og spurði hann út í þá ákvörðun að hella sér út í dómgæslu. Hann er í vor búinn að dæma nokkra leiki.
„Ein af aðalástæðunum fyrir því að ég byrjaði dæma er að ég tel mig geta náð lengra sem dómari í dag heldur en leikmaður. Ég er orðinn 27 ára, líkaminn er í toppstandi og maður stefnir á að komast í FIFA-dómarann," sagði Þórður.
Þórður segir að hugmyndin hafi kviknað í fyrra. „Ég var þá spurður hvort ég vildi fara að dæma. Ég dæmdi þá einn æfingaleik hjá ÍA á undirbúningstímabilinu. Þremur dögum seinna hringdi Jói Kalli í mig og bauð mér samning. Þá sagði ég við Ívar Orra að ég myndi heyra í honum eftir ár með þetta. Það munaði fjórum dögum held ég og þá heyrði ég aftur í honum og sagðist vera orðinn heitur fyrir þessu."
„Ég stefni á að ná eins langt í þessu og hægt er ef maður kann eitthvað í þessu. Maður er búinn að vera dæma frá því maður var að byrja í fótbolta. Ætli ég sé ekki kominn með tæplega 100 leiki í efstu deild sem ég hef dæmt meðfram því að spila leikina sjálfur."
Leikskilningurinn hjálpi
Myndiru segja að þú hafir verið erfiður við dómarana?
„Já, alveg pottþétt. Ég sagði það líka þegar ég fór í hlaupapróf með þeim að ég þyrfti líklega að byrja á því að biðja menn á svæðinu afsökunar. En að sama skapi þá hjálpar þetta manni í dómgæslunni finnst mér, maður skilur leikmennina miklu frekar og ég, þegar ég var að spila, að leikurinn hefði fengið að fljóta meira. Ég held að mín reynsla sem fótboltamaður sé einn af mínum helstu kostum sem dómari - minn leikskilningur. Ég held að ég geti fullyrt það að það sé enginn dómari á Íslandi sem eigi að baki tæplega 100 leiki í efstu deild. Það gæti verið einsdæmi í heiminum."
„Ég tel mig vera með mikinn leikskilning þó að maður hafi kannski ekki verið frábær leikmaður. Maður skilur leikinn mjög vel og ég held að það hjálpi í dómgæslu."
Nefndi upphæð og ekkert heyrt síðan
Þórður lék æfingaleik með Selfossi í vetur en segist ekki hafa verið nálægt því að semja við neitt félag.
„Ég talaði ekki við neinn um neitt. Selfoss hafði samband við mig og buðu mér að koma á æfingu. Ég sagði að ég kæmi á æfingu og sagði já við því þegar mér var boðið að spila leik með þeim. Svo hringdi formaðurinn í mig og ég sagði honum hvað ég þyrfti að fá í laun fyrir að keyra á Selfoss og spila þar. Síðan þá hef ég ekki heyrt í þeim, sem er allt í góðu og skiptir engu máli. Ég var eiginlega ekkert að leita, hleraði örstutt Skagann þegar Jón Þór tók við en annars hef ég ekki talað neinn."
„Nei, þetta var ekki erfið ákvörðun að taka [að snúa sér að dómgæslu] en þetta var erfitt þegar ég mætti í fyrsta skiptið á völlinn sem áhorfandi í stúkunni. Þá saknaði maður þess smá að vera ekki inná í barningnum. Ég var farinn að einbeita mér að öðru en fótboltanum meira, var ekki 100% inn í fótboltanum og ef maður ætlaði ekki að vera 100% þá var þetta bara leiðinlegt."
„Í dómgæslunni ætla ég að vera alla leið inn og ég stefni á að vera búinn að dæma leik í efstu deild fyrir lok næsta tímabils. Það er mitt markmið og ég gef það alveg beint út. Ég veit að ég get komist eins langt og ég vil í þessu."
Ef þú ert nógu góður þá vinnuru þig upp
Hvernig vinnuru þig upp í dómgæslunni?
„Það er frábær spurning, ég skil það ekki almennilega sjálfur. Ég veit að þetta er skipt í héraðsdómara og svo landsdómara. Sem landsdómari máttu dæma í öllum deildum. Í dag má ég dæma í 3. og 4. deild karla og Lengjudeild kvenna ásamt 2. flokki karla. Ég var að segja við dómarastjórann í morgun að ég treysti mér til þess að dæma miklu hærra en það."
„Fyrir mér er dómgæsla ekkert öðruvísi heldur en fótbolti, ef leikmaðurinn er góður þá er hann ekki að spila í 3. deildinni. Það er það sama með dómara finnst mér, auðvitað er allt í lagi að dæma einhverja leiki í neðri deildum en fyrir mér er þetta sami hluturinn. Hvort að ég sé góður dómari er eitthvað sem einhver annar þarf að dæma um."
Þórður stefnir á að verða FIFA dómari. „Ég veit að Ísland á fjóra FIFA-dómara, KSÍ á bara fjögur pláss og það er setið fast um þau pláss. Það er væntanlega eitthvað sem þú vinnur þér inn á einhverjum tíma með góðri og stöðugri frammistöðu," sagði Þórður að lokum.
Athugasemdir