Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 16. júlí 2020 13:00
Fótbolti.net
Finnur hrelldi Blika með orku sinni
Finnur í leiknum í vikunni.
Finnur í leiknum í vikunni.
Mynd: Hulda Margrét
Finnur Orri Margeirsson átti magnaða innkomu inn í byrjunarlið KR þegar liðið lagði Breiðablik 3-1 í vikunni. Finnur byrjaði sinn fyrsta leik í Pepsi Max-deildinni í sumar og átti frábæran leik gegn uppeldisfélaginu Breiðabliki.

Arnar Hallsson, leikgreindi leikinn fyrir Fótbolta.net, og kom sérstaklega inn á frammistöðu Finns Orra í greiningu sinni.

„KR-ingarnir pressuðu stíft og orkan á miðjunni hjá KR-ingum var gríðarleg og þar fór Finnur Orri fyrir sínum mönnum. Tók mikið af kröftugum pressuhlaupum og vann hvert návígið á fætur öðru. Á fyrstu 30 mínútum leiksins unnu KR-ingar um 50% af návígjum sínum varnarlega á meðan Blikar unnu bara 26% sinna návígja varnarlega," sagði Arnar í leikgreiningunni.

„Ákefðin í leik KR-inga var ekki bara í upphafi leiks því þeir neituðu Blikum um pláss og tíma allan leikinn. Það er alveg ljóst að leikmenn KR-inga eru vel þjálfaðir og reynsla þeirra mikil þannig að spennustigið í stóru leikjunum hefur verið hárrétt til þessa. Þá virðist Rúnar (Kristinsson) hafa ákaflega góð tök á hópnum og hafa myndað sterkan samnefnara milli manna."

„Finnur Orri hefur til að mynda ekki byrjað leik á Íslandsmótinu fyrr en nú, hafði spilað rétt um 90 mínútur í fyrstu fjórum leikjunum sem varamaður. Hann kom inn í byrjunarliðið og var besti maður liðsins að mínu mati í þessum leik. Lagði upp tvö mörk fyrir Pablo og hrelldi Blikana með orku sinni allan leikinn."

„Nokkrum sinnum brá því fyrir að kantmenn leituðu inn miðlægt og miðjumennirnir Pablo og Finnur höfðu það hlutverk að leysa út á vængina. Þessi færsla olli Blikum nokkrum vandræðum í fyrri hálfleiknum sérstaklega. Pablo leysti þá út til vinstri og Finnur Orri leysti út til hægri. Finnur Orri var sérstaklega ógnandi í þessu hlutverki,"
sagði Arnar en í leikgreiningunni má sjá myndrænt hvernig Finnur náði að stríða vörn Blika með þessum hlaupum.

Smelltu hér til að lesa leikgreiningu Arnars

Hér að neðan má sjá tölfræði yfir návígi Finns Orra í leiknum en hann var í flest návígi allra KR-inga.
Athugasemdir
banner
banner