
„Þetta var mikill karakter, frábær liðsheild hjá okkur að klára þetta. Þórsararnir eru erfiðir heim að sækja og koma hingað og vinna öflugan sigur er bara frábært," sagði Magnús Már Einarsson þjálari Aftureldingar eftir góðan 3-1 sigur á Þór á Vís vellinum á Akureyri en þetta var fyrsta tap Þórs á heimavelli í sumar.
Lestu um leikinn: Þór 1 - 3 Afturelding
„Auðvitað er eins marks forysta alltaf tæp en mér fannst þeir ekki skapa sér mikið af færum. Varnarleikurinn var mjög góður og þeir skapa sér ekki mikið í seinni hálfleik sem ég man eftir," sagði Maggi.
„Mér fannst við geta sett þriðja markið allavega einu sinni ef ekki tvisvar áður en það kom síðan. Það var sætt þegar það kom þá gat maður andað aðeins léttar."
Afturelding er komið með 9 stiga forystu í Lengjudeildinni eftir að Fjölnir gerði jafntefli á sama tíma. Maggi hugsar bara um sína menn.
„Það eina sem skiptir máli er að við vinnum okkar leiki og ef við gerum það áfram þá verður niðurstaðan góð í haust. Eina sem við erum að hugsa um er að við viljum meira, við erum alls ekki saddir. Það eru 12 leikir búnir og ennþá 10 leikir eftir, við viljum ennþá meira," sagði Maggi.