„Mér líður ágætlega. Ég er alltaf sátt með sigur en mér fannst við ekki alveg nógu góðar í þessum leik. Við endum þessa undankeppni með stæl samt, sex stigum úr þessum glugga. Það er bara frábært," sagði Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður Íslands, eftir 0-1 sigur gegn Póllandi í síðasta leiknum í undankeppni EM 2025.
Lestu um leikinn: Pólland 0 - 1 Ísland
Sveindís skoraði sigurmark Íslands í leiknum í fyrri hálfleik þegar hún tók boltann af varnarmanni Póllands, óð upp völlinn og setti boltann í netið.
„Ég sé að varnarmaðurinn er að taka lélega snertingu og næ að pota í hann á undan henni. Þá er ég eiginlega komin ein í gegn. Svo kemur ein fljúgandi á móti mér og ég þurfti bara að taka eina snertingu til hliðar og svo skot."
„Það kemur annar varnarmaður mjög hratt á móti mér og hún eiginlega gefur mér þetta. Þá þarf ég bara að taka hann einu sinni til hliðar og svo skot í nærhornið. Það er gott að þetta hafi verið sigurmarkið."
Ísland endar í öðrum sæti í riðlinum sínum og fer beint á EM.
„Við vorum auðvitað mjög ánægðar með sigurinn gegn Þýskalandi en við vissum hvað væri í húfi í dag. Þær vinna sinn leik, Þýskaland, og við tökum þá bara annað sætið. Besta annað sætið í öllum riðlinum og við erum ánægðar að vera fimmta besta liðið."
Vá! Sveindís Jane hreinlega valtaði yfir pólsku vörnina ein síns liðs. Óstöðvandi ???????????? pic.twitter.com/wjXZlJHrsy
— RÚV Íþróttir (@ruvithrottir) July 16, 2024
Athugasemdir