
Það eru Víkingar sem eru Mjólkurbikarmeistarar 2023 eftir sigur á KA í dag. Víkingar verja því bikarmeistaratitilinn enn eitt árið en þeir hafa verið handhafar titilsins síðan 2019.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 1 KA
„Ég held að við förum út að skemmta okkur smá í dag og svo er það bara að vera tilbúin á miðvikudaginn á móti KR." Sagði Nikolaj Hansen fyrirliði bikarmeistara Víkinga eftir leik.
„Þetta er alltaf jafn skemmtilegt og ég elska að vinna og ég elska að vinna titla og við erum með geggjað lið og við erum búnir að vinna sex titla af sjö seinustu þrjú ár svo þetta er bara búið að vera geggjað."
Nikolaj Hansen hefur unnið bikarmeistaratitilinn þrívegis með Víkingum og vill hann meina að þessi sé sá besti.
„Já ég held það - Sá nýjasti er alltaf sá skemmtilegasti svo núna þurfum við að njóta þess örlítið og einbeita okkur svo að deildinni aftur."
Víkingar geta tryggt tvennuna í vikunni annaðhvort með hagstæðum úrslitum úr öðrum leikjum eða með sigri gegn KR á miðvikudag.
„Ég held að vinna tvennuna sé það stærsta sem hægt er að gera og núna er fókusinn bara á deildina og að klára og ég sagði við strákana fyrir leik að við erum búnir að vera geggjaðir í sumar en með enga titla en núna er fyrsti kominn og vonandi næsti á móti KR."
Nánar er rætt við Nikolaj Hansen í spilaranum hér fyrir ofan.