Man Utd gæti átt von á tilboði frá Napoli í Alejandro Garnacho - Bayern München vill Mainoo - Man City til í að hleypa Walker frítt
   mán 16. september 2024 21:13
Brynjar Ingi Erluson
Besta deildin: Víkingur pakkaði Fylki saman og endurheimti toppsætið - Valur skoraði fjögur gegn KR
Ari Sigurpálsson átti stjörnuframmistöðu gegn Fylki
Ari Sigurpálsson átti stjörnuframmistöðu gegn Fylki
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Danijel Dejan Djuric skoraði laglegt mark
Danijel Dejan Djuric skoraði laglegt mark
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lúkas Logi Heimisson skoraði tvö keimlík mörk
Lúkas Logi Heimisson skoraði tvö keimlík mörk
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Patrick Pedersen er kominn með 14 mörk í deildinni
Patrick Pedersen er kominn með 14 mörk í deildinni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslands- og bikarmeistarar Víkings unnu Fylki sannfærandi, 6-0, í 22. umferð Bestu deildar karla á Würth-vellinum í Árbæ í kvöld. Valur vann á meðan KR, 4-1, þar sem Lúkas Logi Heimisson gerði tvö mörk fyrir Valsmenn.

Þetta voru tveir síðustu leikirnir í hefðbundinni tveggja umferða deild, en deildinni verður nú skipt í tvo hluta: meistarariðil og fallriðil.

Víkingar gátu endurheimt toppsætið gegn Fylki og gerðu það nokkuð örugglega.

Það tók meistarana aðeins fjórar mínútur að komast yfir og kom það eftir mistök Matthias Præst. Danski leikmaðurinn fékk boltann fyrir utan eigin vítateig, en fékk pressu í bakið og tapaði honum, sem Ari Sigurpálsson nýtti sér með því að snerta boltann nokkrum sinnum áður en hann setti hann í netið.

Víkingar héldu áfram að keyra á særða Fylkismenn, sem voru hreinlega ekki mættir til leiks. Níu mínútum eftir opnunarmark leiksins kom annað mark, en þar var að verki Nikolaj Hansen eftir sendingu Ara Sigurpáls.

Danijel Dejan Djuric gerði þriðja markið. Valdimar Þór Ingimundarson kom boltanum á Danijel sem var með menn í bakinu, en hann náði að leika á þá, snúa og skora með þéttingsföstu skoti.

Gestirnir byrjuðu síðari hálfleikinn betur og áttu nokkrar tilraunir en það var ekki fyrr en Fylkismenn gerðu breytingar sem það fór að lifna aðeins við fram á við. Theodór Ingi Óskarsson hafði ekki verið lengi inn á er hann átti hörkuskot fyrir utan teig en boltinn í stöng.

Nokkrum mínútum síðar gerði Ari Sigurpáls fjórða mark Víkinga er Aron Elís Þrándarson sendi hann í gegn. Annað mark hans í leiknum.

Varamennirnir bjuggu síðan til fimmta markið. Helgi Guðjóns fékk boltann í gegn, lagði hann fyrir Daða Berg Jónsson sem gerði sitt fyrsta deildarmark.

Á lokamínútunum gerði Helgi síðan sjötta og síðasta mark Víkinga eftir stórkostlega sendingu frá Gísla Gottskálk Þórðarsyni. Hann fékk boltann á miðjum velli og kom með þessa konfektsendingu á Helga sem gerði vel að klára færið.

6-0 stórsigur Víkings staðreynd og meistararnir komnir aftur á toppinn með 49 stig, eins og Breiðablik, en Víkingar með betri markatölu. Fylkir er á botninum með aðeins 17 stig.

Lúkas Logi með tvö í sigri Vals á KR

Valur vann góðan 4-1 sigur á KR á Hlíðarenda og nú komið í góða stöðu um þriðja sætið.

Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar áður en Lúkas Logi Heimisson gerði sér lítið fyrir og skoraði tvö mörk á átta mínútna kafla.

Lúkas og Jónatan Ingi Jónsson spiluðu boltanum sín á milli á 8. mínútu áður en Jónatan hælaði boltann fyrir Lúkas sem skoraði með föstu skoti fyrir utan teig og í fjærhornið og skildi Guy Smit eftir hreyfingarlausan í markinu.

Sama uppskrift var að öðru marki Vals. Jónatan aftur með hælsendingu fyrir Lúkas sem hamraði boltanum fyrir utan teig og efst upp í hornið.

Valur hefði hæglega getað bætt við fleiri mörkum fyrir leikhlé, en heimamenn sáttir með tveggja marka forystu.

Það kom aðeins meiri kraftur í KR í byrjun síðari. Ástbjörn Þórðarson þrumaði Gylfa Þór Sigurðsson niður og færðist í kjölfarið mikill hiti í leikinn, sem er einmitt það sem KR-ingar vildu, en það gaf þeim smá meðbyr sem liðið nýtti.

Aron Sigurðarson minnkaði muninn með skoti úr þröngri stöðu þegar hálftími var eftir og átta mínútum síðar var hann nálægt því að jafna metin, en vippa hans fór rétt yfir mark heimamanna.

KR-ingum var refsað fyrir klaufaleg mistök þegar tæpur stundarfjórðungur var eftir. Birgir Steinn Styrmisson og Finnur Tómas Pálmason skullu saman og komst Patrick Pedersen í gegn. Hann átti skot sem fór í Axel Óskar Andrésson og í netið.

Mikilvægt mark hjá Val sem náði síðan að gera endanlega út um leikinn í uppbótartíma. Orri Hrafn Kjartansson sendi Tryggva Hrafn Haraldsson í gegn og skoraði hann af öryggi.

Öflugur sigur hjá Val sem er með 38 stig í þriðja sæti deildarinnar en KR-ingar í 9. sæti með aðeins 21 stig.

Fylkir 0 - 6 Víkingur R.
0-1 Ari Sigurpálsson ('4 )
0-2 Nikolaj Andreas Hansen ('13 )
0-3 Danijel Dejan Djuric ('33 )
0-4 Ari Sigurpálsson ('63 )
0-5 Daði Berg Jónsson ('66 )
0-6 Helgi Guðjónsson ('82 )
Lestu um leikinn

Valur 4 - 1 KR
1-0 Lúkas Logi Heimisson ('14 )
2-0 Lúkas Logi Heimisson ('22 )
2-1 Aron Sigurðarson ('60 )
3-1 Patrick Pedersen ('76 )
4-1 Tryggvi Hrafn Haraldsson ('91 )
Lestu um leikinn
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Víkingur R. 22 15 4 3 56 - 23 +33 49
2.    Breiðablik 22 15 4 3 53 - 28 +25 49
3.    Valur 22 11 5 6 53 - 33 +20 38
4.    ÍA 22 10 4 8 41 - 31 +10 34
5.    Stjarnan 22 10 4 8 40 - 35 +5 34
6.    FH 22 9 6 7 39 - 38 +1 33
7.    Fram 22 7 6 9 31 - 32 -1 27
8.    KA 22 7 6 9 32 - 38 -6 27
9.    KR 22 5 6 11 35 - 46 -11 21
10.    HK 22 6 2 14 26 - 56 -30 20
11.    Vestri 22 4 6 12 22 - 43 -21 18
12.    Fylkir 22 4 5 13 26 - 51 -25 17
Athugasemdir
banner
banner
banner