Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mán 16. nóvember 2020 13:32
Magnús Már Einarsson
KR ætlar ennþá lengra með málið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR, segir í samtali við Vísi í dag að félagið ætli að fara til áfrýjunardómstóls KSÍ eftir að aga- og úrskurðarnefnd KSÍ vísaði frá kæru félagsins vegna þess að keppni á Íslandsmótinu og í Mjólkurbikarnum var hætt.

KR missti af Evrópusæti í karlaflokki en liðið var í 5. sæti í Pepsi Max-deilinni þegar leik var hætt og í undanúrslitum í Mjólkurbikarnum. Kvennalið KR féll úr Pepsi Max-deildinni.

Kæru KSÍ var vísað frá á þeim forsendum að ekki væri heimilt að kæra KSÍ til nefndarinnar. KR hefur þrjá daga til að senda málið áfram til áfrýjunardómstóls KSÍ.

„Ef dómstóllinn kemst að þeirri niðurstöðu að það sé ekki hægt að endurskoða ákvarðanir stjórnar þá er mér verulega brugðið. Ég tel að þessi niðurstaða aga- og úrskurðarnefndar sé ekki rétt, og að málið eigi að minnsta kosti að fá efnislega umfjöllun. Ekki að málinu sé bara vísað frá af því að það sé ekki hægt að bera ákvörðun stjórnar undir dómstól. Ég veit ekki hver tilgangur þessa dómstóls er ef að stjórnin er hafin yfir leikreglur,“ sagði Páll við Vísi.

Páll sagði ljóst að ef til þess kæmi væri einnig hægt að fara með málið til áfrýjunardómstóls ÍSÍ, alþjóða íþróttadómstólsins eða fyrir íslenska dómstóla: „Við munum skoða alla okkar möguleika.“

Kæru Fram var einnig vísað frá en félagið endaði í 3. sæti í Lengjudeildinni. Ásgrímur Helgi Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, sagði við Vísi að málið væri til skoðunar hjá félaginu.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner