Haaland, Toney, Gomes, Diomande, Gyokeres, Southgate, O'Neil, De Zerbi og fleiri góðir í slúðri dagsins
   þri 17. janúar 2023 15:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
„Sum félög að kaupa menn á margar milljónir og við erum ekki þar"
Siggi Raggi ræðir athyglisverðan vetur í Keflavík þar sem fjölmargir hafa horfið á braut
Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keflavík fagnar marki á síðasta tímabili.
Keflavík fagnar marki á síðasta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Patrik var seldur til Breiðabliks á metfé.
Patrik var seldur til Breiðabliks á metfé.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Sindri Kristinn fór í FH.
Sindri Kristinn fór í FH.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Joey Gibbs samdi við Stjörnuna.
Joey Gibbs samdi við Stjörnuna.
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Gunnlaugur Fannar Guðmundsson er eini leikmaðurinn sem Keflavík hefur fengið í sínar raðir í vetur.
Gunnlaugur Fannar Guðmundsson er eini leikmaðurinn sem Keflavík hefur fengið í sínar raðir í vetur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Adam Ægir Pálsson var stoðsendingakóngur Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð.
Adam Ægir Pálsson var stoðsendingakóngur Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það eru ekki margir eftir úr þessu liði.
Það eru ekki margir eftir úr þessu liði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik FH og Keflavíkur
Úr leik FH og Keflavíkur
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Haraldur Freyr Guðmundsson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Haraldur Freyr Guðmundsson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Verður maður ekki að vera bjartsýnn?" segir Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við Fótbolta.net í dag.

Það hefur mikið gengið á hjá Keflavík frá því síðasta tímabili lauk, eftir að liðið endaði í sjöunda sæti Bestu deildarinnar og náði þar með sínum besta árangri síðan 2010 þegar liðið endaði í tíunda sæti efstu deildar.

Sjá einnig:
Blæs á sögusagnir um fjárhagsörðugleika í Keflavík

Keflvíkingar hafa misst marga lykilmenn frá sér í vetur og stuðningsmenn hafa áhyggjur af stöðu mála. Þjálfari liðsins segir þetta áskorun en heldur í bjartsýnina.

„Við erum búnir að spila þrjá leiki að undanförnu. Við unnum Breiðablik 2-1, töpuðum 2-1 fyrir FH og unnum ÍBV 3-0. Það er svo sem ekki mikið að marka úrslit á þessum árstíma en við erum að gefa leikmönnum tækifæri á að spila, ungum strákum sem töpuðu bikarúrslitaleik síðasta sumar og unnu B-riðil Íslandsmótsins. Um leið erum við að leita að leikmönnum sem styrkja liðið. Það tekur tíma að finna þá en við þurfum að finna nokkra menn, það er ljóst."

Getum ekki verið annað en stoltir af því
Siggi Raggi kveðst stoltur af tímabili þar sem hann segir liðið hafa spilað góðan fótbolta og um leið náð fínum árangri, besta árangri liðsins í tólf ár.

„Ég var mjög ánægður með árangur síðasta árs. Það var margt mjög gott við síðasta tímabil. Við spiluðum skemmtilegan sóknarfótbolta, vorum í þriðja sæti í markaskorun og í öðru sæti í sköpuðum færum. Við vorum sterkir á útivelli. Þegar leið á tímabilið fundum við taktinn vel og spiluðum góðan fótbolta. Sjöunda sætið er besti árangur Keflavíkur í tólf ár. Við getum ekki annað en verið stoltir af því," segir þjálfarinn en í lok tímabilsins voru leikmenn sem höfðu spilað með Keflavíkurliðinu valdir í A-landsliðiðið. Þá er um að ræða Sindra Kristin Ólafsson og Rúnar Þór Sigurgeirsson. Adam Ægir Pálsson, sem var á láni hjá félaginu, var einnig valinn í hóp til vara.

„Í lok tímabilsins eru uppaldir leikmenn líka valdir í A-landsliðið. Þetta eru allt strákar sem spiluðu í 2. flokki með Keflavík. Við getum ekki verið annað en ánægðir þar sem við erum með eitt minnsta 'budgetið' í deildinni."

Ekki það sem maður vill
Líkt og áður segir þá hefur Keflavík misst frá sér marga stóra pósta, nánast heilt byrjunarlið af leikmönnum. Siggi Raggi segir þetta ekki vera ákjósanlegt, auðvitað ekki.

„Auðvitað er það ekki ákjósanlegt, ekki það sem maður vill. Maður vill halda leikmönnunum sínum en það var tiltölulega snemma ljóst að við myndum eiga í erfiðleikum með það," segir Sigurður Ragnar en hann segir að Keflavík geti ekki barist við mörg önnur félög í deildinni um fjármagn.

„Ég bað um það í janúar í fyrra að það yrði samið við þessa leikmenn en það tókst ekki. Menn voru ekki tilbúnir að skrifa undir. Það er staðreynd að við erum að borga mun minna í laun. Það er orðinn svo mikill munur á félögunum í deildinni varðandi það hvað er hægt að greiða í laun."

„Þessi þrjú ár sem ég hef verið hjá félaginu þá höfum við ekki keypt neinn en við höfum selt leikmenn fyrir hátt í 30-40 milljónir. Við höfum bara tekið leikmenn sem eru á frjálsri sölu. Menn sáu fram á að þegar liðinu gekk vel að fara í lið sem getur greitt betur."

„Rúnar Þór fer í atvinnumennsku og ég skil það vel. Patrik Johannesen er keyptur í Breiðablik og það er metsala innanlands. Það eru eðlilegar skýringar á því af hverju margir af þeim fóru. Joey Gibbs er búinn að vera í þrjú ár hjá okkur og standa sig mjög vel. Hann fékk mun betri samning hjá Stjörnunni. Þetta á sér svo sem eðlilegar skýringar. Við þurfum að finna aðra menn í staðinn og þróa næstu kynslóð."

Það hjálpaði ekki Keflavík í samningaviðræum við leikmenn sína að vera eftir á í greiðslum til þeirra, en leikmenn fengu greitt á endanum. „Sumar greiðslur komu seint, en ég held að flest félög hafi lent í því. Maður hefur heyrt sögur af því," segir Siggi Raggi og bætir við:

„Ég held að Keflavík þurfi að taka baráttuna utan vallar í að stækka félagið á einhvern hátt, og efla fjárhagsstyrk félagsins. Það er mikilvægt - finna leiðir til þess. Það er ein hlið á teningnum að vera með lið í Bestu deildinni og svo er önnur hlið á teningnum hvort þú hafir fjárhagslega burði til þess að keppa við hin félögin. Við sjáum að sum félög í deildinni eru að kaupa leikmenn á margar milljónir og við erum ekki þar, við erum ekki nálægt því. Við þurfum alltaf að leita að 'bargains' eins og maður segir."

„Ég veit að félagið gerir sitt besta til að láta þjálfarann að hafa sem mest 'budget'. Keflavík er að reka tvö lið í efstu deild og við erum stolt af því sem félag. Það eru ekki mörg félög sem geta sagt það. Ég myndi auðvitað kjósa að hafa 'stærra' budget svo við getum gert meiri atlögu að því að vera topp sex lið. Við vorum nálægt því síðasta sumar. Eins að við gætum fengið sterkari leikmenn til okkar og haldið þeim; greitt þeim það góð laun að þau sjá ekki að grasið sé grænna hjá öðrum félögum í deildinni."

„Það er sérstaklega sárt þegar uppaldir leikmenn fara eins og gerðist með Sindra Kristin. Hann fer í lið sem endar fyrir neðan okkur í deildinni. Þá finnst mörgum Keflvíkingum það auðvitað sárt, en menn semja ekki bara út frá tilfinningum, þeir þurfa líka að fá fyrir sinn snúð. Fótboltaferillinn er stuttur og menn vilja kannski létta sér lífið með því að fá eins mikið greitt og þeim er kostur á," segir Siggi Raggi en Sindri Kristinn, sem hefur verið einn besti markvörður Bestu deildarinnar, fór í FH.

Fyrsta skrefið og vonandi getum við tilkynnt um fleiri fljótlega
Keflavík ætlar sér að gefa ungum leikmönnum tækifæri, en það er alveg ljóst að félagið þarf að styrkja sig ef það á að vera samkeppnishæft í sumar.

„Við höfum verið að leita að leikmönnum sem eru í annarri verð kategoríu en mörg félögin í deildinni eru að leita að. Það gerir okkur erfiðara fyrir. Það er meiri vinna að finna leikmenn sem eru vanmetnir. Við erum að reyna að finna leikmenn sem hafa eitthvað að sanna, leikmenn sem við teljum að séu betri heldur en aðrir valkostir sem eru orðnir dýrari. Við erum alltaf að leita að 'value' fyrir pening. Við erum ekki að keppa í sömu verð kategoríu og félögin fyrir ofan okkur - því miður. Við þurfum að finna lausnir á því sem félag ef félagið vill komast hærra," segir Sigurður Ragnar.

„Það er auðvitað sárt að sjá leikmenn fara. Við höfum verið að þróa marga leikmenn fyrir önnur lið. Við vorum að spila æfingaleik við FH um daginn og í FH-liðinu eru leikmenn sem voru að spila fyrir Keflavík. Sindri Kristinn var að spila á móti okkur, Ástbjörn (Þórðarson) og Davíð Snær (Jóhannsson). Við getum svo sem verið stolt af því að okkur hefur tekist að búa til góða leikmenn."

„Það er skemmtilegt að sjá menn taka framförum. Mjög gott dæmi um það er Adam (Ægir Pálsson) frá því síðasta sumar. Hann var ekki inn í myndinni hjá Víkingi - nánast ekki í hóp - og hann endar sem stoðsendingakóngur og brillerar hjá okkur. Núna eru bestu liðin að berjast um að kaupa hann af Víkingi. Það er gaman að sjá leikmenn springa út og að liðinu gangi vel. Svo er það áskorun að búa til næstu."

„Við vorum líka að þróa unga leikmenn síðasta sumar, unga og efnilega. Þeir eru komnir inn í hópinn og hafa verið að spila vel í vetur. Við misstum samt það marga að við verðum að finna aðra í staðinn. Við erum búin að finna einn, Gunnlaug Fannar sem kom frá Kórdrengjum. Hann er fyrsta skrefið og vonandi getum við tilkynnt um fleiri fljótlega."

Markaðurinn hér heima er flókinn og erfiður við að eiga.

„Þetta er flókið. Félögin í Lengjudeildinni virðast meira halda að sér sínum leikmönnum núna þegar það eru meiri möguleikar á því að komast upp en áður út af nýju fyrirkomulagi. Félögin eru farin að vernda sína leikmenn betur. Svo er komið mjög mikið fjármagn hjá bestu liðunum í Bestu deildinni. Ef þau félög vilja fá leikmann þá getum við ekki keppt um hann."

„Við reynum að finna hina sem eru á lausu, leikmenn sem vilja sanna sig. Það eru meiri möguleikar á því að fá að spila hérna. Við bindum vonir við það. Við höfum fengið símhringingar frá stærstu félögunum sem vilja lána okkur leikmenn því þau sjá að við erum góð að þróa leikmenn. Við höfum litið á það meira sem neyðarúrræði að fá lánaða leikmenn þar sem við viljum þróa okkar leikmenn frekar, leikmenn sem eru uppaldir hér."

„Ég vil styrkja liðið á réttum stöðum og það endar líklega með erlendum leikmönnum því íslensku leikmennirnir eru bundnir öðrum félögum. Þetta er vissulega mikil áskorun og leikmannamarkaðurinn er mjög erfiður. Við eyddum gríðarlegum tíma í að finna leikmennina í fyrra. Við verðum bara að halda áfram, en þetta er áskorun. Þetta er kannski meiri áskorun en fyrir þjálfara sem eru ofar í deildinni," segir þjálfari Keflvíkinga.

Hafa ekki efni á því að gera mistök
Keflavík hefur gengið mjög vel á erlenda markaðnum síðustu ár. Félagið er að skoða þann markað núna.

„Það gengur ágætlega á erlenda markaðnum. Við erum að leita að mönnum í fremstu þrjár stöðurnar. Við teljum okkur vera með sterka miðju og við bindum vonir við að geta notað leikmenn sem fengu eldskírn síðasta sumar í staðinn fyrir Patrik Johannesen. Þá er ég að tala um Dag Inga Valsson og Edon Osmani. Við bindum vonir við að þeir stígi upp í sumar."

„Okkur vantar í þrjár fremstu stöðurnar. Þar eigum við unga og efnilega leikmenn sem hafa verið að standa sig fínt í vetur en eru samt mjög reynslulitlir. Svo styrktum við vörnina og fengum Gunnlaug Fannar í staðinn fyrir Dani Hatakka. Við erum að leita að markverði. Við þurfum að styrkja okkur þar, allavega tímabundið í eitt eða tvö ár. Svo sjáum við fyrir okkur að Ásgeir Orri (Magnússon), sem er efnilegur markvörður, taki við."

„Við höfum ekki efni á því að gera mistök og fá leikmenn sem eru ekki nógu góðir. Heilt yfir hefur okkur tekist vel að fá sterka leikmenn til liðs við okkur og við vonumst til þess að það gerist líka núna. Við erum búin að senda tilboð á einhverja og erum að skoða markaðinn," segir Siggi Raggi.

Ekki skrítið að spá Keflavík neðsta sæti eins og er
Ef tímabilið væri að byrja eftir viku þá væri Keflavík langneðst í öllum spám. Það er alveg ljóst og þjálfara liðsins finnst það ekki skrítið á þessum tímapunkti.

„Ég sé fram á að tímabilið sem er framundan verði skemmtilegt en líka mikil áskorun. Við höfum misst marga leikmenn, en það verður spennandi að takast á við þá áskorun."

„Eins og er þá er okkur spáð neðsta sæti, sem er ekki óeðlilegt miðað við það sem við höfum misst. Eigum við ekki að sjá hvaða leikmenn við tökum inn og hvernig núverandi leikmenn standa sig í Lengjubikarnum áður en næsta ótímabæra spá er tekin? Eins og staðan er núna þá verðum við öll ánægð ef við náum að halda liðinu uppi."

Þrátt fyrir erfiðleikana sem fylgja því að missa alla þessa leikmenn þá heldur Siggi Raggi í bjartsýnina og er tilbúinn í áskorunina. Hann telur að félagið standi ágætlega þessa stundina og vonin er sú að liðið verði áfram í Bestu deildinni þegar næsta tímabil klárast. En til að fara enn hærra, þá þarf að gera betur. Eða þá að treysta á að ákveðin 'moneyball' strategía skili kraftaverkum.

Keflavík

Komnir
Gunnlaugur Fannar Guðmundsson frá Kórdrengjum

Farnir
Adam Ægir Pálsson í Víking (var á láni)
Dani Hatakka í FH
Ingimundur Aron Guðnason hættur
Joey Gibbs í Stjörnuna
Kian Williams til Kanada
Patrik Johannesen í Breiðablik
Rúnar Þór Sigurgeirsson til Öster
Sindri Kristinn Ólafsson til FH
Adam Árni Róbertsson í Þrótt Vogum
Athugasemdir
banner
banner