Farid Zato, ásakanir um veðmálasvindl, umræður um að sameina Þór og KA og varnarleikur síðasta tímabils komu fyrir í spjalli við Þórsarana Svein Elías Jónsson og Jóhann Helga Hannesson í útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta laugardag.
Hægt er að hlusta á spjallið í spilaranum hér að ofan.
Hægt er að hlusta á spjallið í spilaranum hér að ofan.
„Hópurinn er frekar þunnur. Ætli við séum ekki búnir að missa ellefu eða tólf frá hópnum í fyrra og það munar um minna," segir Sveinn um leikmannahóp Þórs.
„Við erum í flottu líkamlegu formi. Við erum með góðan þjálfara í þreki og ég held að við höfum ekki verið í svona flottu líkamlegu formi," segir Jóhann og Sveinn bætir við:
„Við höfum samt sem áður ekki tekið neitt útihlaup og er þetta fyrsta tímabilið sem við sleppum því alveg. Tempóið á æfingum er orðið hærra og gott að fá Lárus Orra inn aftur en hann kemur með meiri aga og hærra tempó."
Lárus Orri Sigurðsson er orðinn aðstoðarþjálfari Páls Viðars Gíslasonar.
„Það er hægt að segja margt um þetta en við héldum okkur uppi í fyrsta sinn í 20 ár. Það er margt sem betur hefði mátt fara en við enduðum í áttunda sæti og það er fínn árangur," segir Jóhann um síðasta tímabil en skelfilegur varnarleikur Þórs var til umfjöllunar í Pepsi-mörkunum viku eftir viku.
„Þetta var alveg ömurlegt og maður var hættur að nenna að horfa á þetta helvítis drasl. En svo breyttum við til og fundum flotta blöndu þarna í restina."
Sveinn Elías segir markmið Þórsara að lenda ofar en í fyrra.
„Það koma allir í mótið til að gera betri hluti en ég held að það muni skipta miklu máli að hafa svona „X-faktora" í liðunum sínum. Ég held að það séu þrjú til fimm lið sem eiga að vera betri liðin í deildinni og svo verða hin bara í baráttu."
Í síðustu viku var opinberuð niðurstaða úr könnun þar sem fram kom að meirihluti Akureyringa vill sameina Þór og KA.
„Sem heilvita maður þá veit ég að ef þessi lið myndu sameinast þá myndi áhuginn dvína. Það eru svo margir sem eru harðir Þórsarar og harðir KA-menn og ég persónulega myndi aldrei spila fyrir sameiginlegt lið," segir Jóhann.
Viðtalið við þá félaga er í heild sinni í spilaranum hér að ofan en þar er einnig talað um ásakanir um veðmálasvindl.
„Nú er búið að gefa opið skotleyfi á okkur og öll mörk sem við fáum á okkur verða skoðuð fimm sinnum," segir Sveinn léttur.
Athugasemdir