Kólumbíski leikmaðurinn James Rodriguez segir að blómi hans ferils hafi verið betri en hjá þeim Luka Modric, Toni Kroos og Zinedine Zidane.
Rodriguez er 33 ára gamall sóknartengiliður sem samdi við Real Madrid árið 2014 eftir að hafa átt ótrúlegt heimsmeistaramót með Kólumbíumönnum.
Tími hans hjá Real Madrid spannaði sex ár en hann náði ekki beint að fylgja á eftir frábæru fyrsta tímabili og þá kaus Zidane á endanum að hætta spila með 'tíu' og spila þeim Casemiro, Modric og Kroos saman, sem áttu síðan eftir að mynda bestu miðju heims.
Hann er samt sem áður á því að blómi ferilsins hafi verið betri en hjá Kroos, Modric og sjálfum Zidane.
„Zidane var mjög góður og vann HM með þjóð sinni þegar hann var upp á sitt allra besta, en ég vel James,“ sagði hann kokhraustur í viðtali við Edu Aguirre.
Rodriguez spáir því þá að Jude Bellingham verði besti leikmaður heims í framtíðinni.
„Ég skoraði meira en 14 mörk og gaf 15 stoðsendingar á fyrsta tímabili mínum, svipað ár og Bellingham átti á sínu fyrsta tímabili með Real Madrid. Ég er mjög hrifinn af því hvernig hann spilar og held ég að hann gæti unnið Ballon d'Or. Ég þurfti að berjast við Messi, Cristiano Ronaldo, Iniesta, Xavi, Luis Suarez og Neymar árið 2014. Ég hafnaði í áttunda sæti með allar þessar goðsagnir í sætunum á undan. Ég hefði viljað vinna Ballon d'Or og komst nálægt því, en það er rétt að ég hafi verið einbeittari á að vinna titla eins og Meistaradeildina,“ sagði James í viðtalinu.
Í dag spilar James með Leon í Mexíkó en hann hefur söðlað mikið um síðustu ár og lék meðal annars með Rayo Vallecano, Olympiakos, Al Rayyan, Sao Paulo og Everton.
Athugasemdir