Tottenham vill Eze - Belgi orðaður við Arsenal - Man Utd í viðræðum um Rabiot
   mán 17. júní 2024 20:00
Ívan Guðjón Baldursson
Tedesco: Við verðum að treysta VAR
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Domenico Tedesco var hundsvekktur eftir tap Belgíu gegn Slóvakíu í fyrstu umferð Evrópumótsins í dag.

Slóvakar tóku forystuna snemma leiks eftir mistök Jeremy Doku og fengu Belgar mikið af góðum færum í leiknum, án þess að takast að jafna.

Romelu Lukaku setti boltann tvisvar sinnum í netið og hélt í bæði skiptin að hann hefði skorað löglegt mark, en svo var ekki. VAR-herbergið lét dæma fyrra markið af vegna naumrar rangstöðu og seinna markið vegna hendi í aðdragandanum.

Tedesco er ósáttur með seinna atvikið, þar sem Loïs Openda snerti boltann með hendi áður en hann lagði upp fyrir Lukaku. Hann telur að leikmaður Slóvakíu hafi ýtt í bakið á Openda þegar hann snerti boltann með hendinni en neitaði að tjá sig um það eftir tapið.

„Það er erfitt að tala opinskátt. Ef við hefðum unnið þá gæti ég sagt meira um mína skoðun, en við töpuðum þessum leik og þess vegna kýs ég að tjá mig ekki of mikið," sagði Tedesco að leikslokum. „Við verðum að treysta dómurunum. Við verðum að treysta VAR. Ef þeir segja að þetta sé hendi, þá verðum við að samþykkja það."

Þetta reyndist fyrsta tap belgíska landsliðsins undir stjórn Tedesco, en Belgía hefur á undanförnum árum verið þekkt fyrir að gera frábærlega í öllum undankeppnum en ekki standa sig nægilega vel á lokamótum.

„Þetta er mjög sárt tap í kvöld. Ég vil ekki benda á neinn. Við munum ræða margt innan liðsins sem fer ekki í fjölmiðla. Ég vissi að við myndum tapa einn daginn og því miður var sá dagur í dag.

„Við spiluðum góðan leik. Við sköpuðum mikið af mjög góðum færum en gátum bara ekki skorað. Það var ótrúlegt."


Belgía spilar næst við Rúmeníu áður en liðið mætir Úkraínu í lokaumferð riðlakeppninnar. Lærisveinar Tedesco þurfa helst tvo sigra úr þeim leikjum.

„Við erum svekktir og við þurfum að nota það til að gera betur næst. Ég hef alltaf sagt að við lentum í erfiðum riðli og það má ekki gera ráð fyrir að við förum upp. Núna þurfum við að sigra næstu leiki."

   17.06.2024 18:07
Sjáðu atvikin: Annað mark tekið af Belgum - 44 marktilraunir án marks

Athugasemdir
banner
banner
banner