„Þetta var mjög súrt. Við töpuðum baráttunni gegn ástríðufullu liði. Á mjög stórum köflum í leiknum koðnuðum við bara niður og leyfðum þeim að taka yfir leikinn sem er leiðinlegt að sjá.“ sagði Brynjar Kristmundsson, þjálfari Víkings Ólafsvíkur, eftir 3-2 tap gegn FC Árbæ í 16-liða úrslitum fótbolta.net bikarsins í kvöld
Lestu um leikinn: Árbær 3 - 2 Víkingur Ó.
Brynjar var ósáttur með sína menn í dag hvernig þeir koðnuðu niður oft í kvöld.
„Við vissum alveg að þetta væri lið sem þrífst á orku. Þegar við gáfum þeim einhver tækifæri til að nýta sér það koðnuðum við bara niður og þeir keyrðu á okkur. Við vorum með þá í seinni hálfleik og ég hélt að við værum að ná sigurmarkinu. En þegar það dettur ekki og við förum að pirra okkur að þeim og dómaranum þá stígur þetta lið bara upp og refsar okkur sem þeir gerðu í dag.“
Var eitthvað annað en baráttan sem klikkaði í dag?
„Það eru ótrúlega margir hlutir sem klikka hjá okkur í dag. Í fyrsta markinu klikkar pressan okkar þegar þeir eru að spila með háa línu en við erum að reyna að spila þröngt miðsvæðis í staðinn fyrir að fara aftur fyrir þá. Það eru svo mikið af svon hlutum sem eru bara klaufalegir. Við erum með það gott lið að við eigum að sjá þetta. Mér fannst við fyrst og fremst tapa fyrir ástríðufullu liði sem tók yfir leikinn þannig.“
Næsti leikur Víkinga er gegn KFA á heimavelli næstkomandi sunnudag en Brynjar segir byrjunina á mótinu vera fína.
„Fín byrjun. Margar góðar frammistöður og margar enn verri. Við töpuðum fyrsta leiknum okkar í seinustu umferð. En núna er það bara nýr leikur gegn KFA, risaleikur. Við munum leggja allt í sölurnar í þann leik og taka Árbæjarliðið til fyrirmyndar eins og þeir spiluðu í dag.“ sagði Brynjar.
Viðtalið við Brynjar má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.