„Orkustigið það hefði þurft að vera aðeins hærra, þá hefðum við fækkað mistökunum. Við vorum að gera fleiri mistök í þessum leik en oftast áður og það var þreyta í mannskapnum, það verður bara því miður að segja það þó það sé leiðinlegt að gera það," sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar eftir 2-0 tap gegn Breiðablik á Kópavogsvelli í dag.
„Við stjórnuðum leiknum og vorum með boltann nánast allan tímann en náum ekki að búa til nógu opið færi og það er það sem skilur á milli í þessu."
Lestu um leikinn: Breiðablik 2 - 0 Stjarnan
Breiðablik varðist aftarlega í leiknum, mun aftar en þær eru þekktar fyrir. Þetta kom Kristjáni ekki á óvart.
„Nei nei við vissum svo sem ekki hverju við áttum von á frá þeim í dag en þetta var svaka virðing á okkur að þær skyldu leggjast niður á teig og sparka boltanum fram, það er alveg geggjað. En okkur tókst ekki að opna þær nógu vel."
Kristján talaði um þreytu í Stjörnuliðinu en liðið kom úr Evrópuleikjum og spilaði við Val fyrir þremur dögum. En nú er landsleikjahlé framundan sem er kærkomið.
„Að spila við Val og Breiðablik á þremur dögum það er ekkert grín fyrir hvaða lið sem er. Þetta er mun hærra álag heldur en að spila við önnur lið í deildinni, með fullri virðingu fyrir öðrum liðum í deildinni. Það verður hvíld frá þessu mikla álagi hjá flestum leikmönnum en einhverjar eru að fara með landsliðunum og verða í einhverju álagi," sagði Kristján.
Nánar er rætt við Kristján í spilaranum hér að ofan.