Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   lau 18. febrúar 2023 08:52
Elvar Geir Magnússon
Atsu fannst látinn
Fótboltamaðurinn Christian Atsu fannst látinn undir rústum heimilis síns, tæplega tveimur vikum eftir jarðskjálftann í Tyrklandi. Umboðsmaður hans hefur staðfest þetta.

Atsu var 31 árs og var hjá Everton, Chelsea og Newcastle á ferli sínum.

Atsu hafði verið saknað síðan 6. febrúar þegar jarðskjálftinn olli því að íbúðarhús hans hrundi í tyrknesku borginni Hatay.

Félag hans, Hatayspor, tilkynnti að Atsu hefði verið dreginn slasaður úr rústunum en degi síðar kom í ljós að þær upplýsingar voru rangar.

Í dag skrifaði Nana Sechere, umboðsmaður Atsu, tilkynningu á Twitter um að lík Christian Atsu hefði fundist undir rústunum núna í morgun.

„Mín dýpsta samúð til fjölskyldu hans og ástvina. Ég vil nota tækifærið og þakka öllum fyrir stuðning þeirra og bænir," skrifaði Sechere.

Atsu gekk í raðir tyrkneska úrvalsdeildarfélagsins Hatayaspor í september 2022 og skoraði sigurmarkið í tyrkneskum deildarleik þann 5. febrúar.

Yfir 40 þúsund manns eru staðfest látin eftir jarðskjálftana í Tyrklandi og Sýrlandi.


Athugasemdir
banner
banner