Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   lau 18. febrúar 2023 19:40
Brynjar Ingi Erluson
England: Liverpool batt enda á frábært gengi Newcastle
Darwin Nunez fagnar marki sínu
Darwin Nunez fagnar marki sínu
Mynd: EPA
Nick Pope stökk á boltann með hendurnar á undan og var réttilega rekinn af velli
Nick Pope stökk á boltann með hendurnar á undan og var réttilega rekinn af velli
Mynd: EPA
Newcastle 0 - 2 Liverpool
0-1 Darwin Nunez ('10 )
0-2 Cody Gakpo ('17 )
Rautt spjald: Nick Pope ('22, Newcastle )

Liverpool batt enda á sautján leikja taplausri hrinu Newcastle United er liðið vann 2-0 sigur á St. James' í ensku úrvalsdeildinni í dag. Nick Pope, markvörður heimamanna, fékk rauða spjaldið snemma um miðjan fyrri hálfleikinn eftir skelfileg mistök.

Heimamenn í Newcastle byrjuðu leikinn betur og náði Miguel Almiron skoti sem Alisson varði en það fór allt niður á við hjá Newcastle eftir það.

Darwin Nunez, sem hefur verið iðinn við það að klúðra færum á tímabilinu, kom Liverpool í forystu á 10, mínútu. Eftir gott spil fékk Trent Alexander-Arnold boltann hægra megin á miðjunni og kom með glæsilega sendingu inn fyrir á Nunez sem átti góða fyrstu snertingu áður en hann þrumaði boltanum í vinstra hornið.

Sjö mínútum síðar bætti Cody Gakpo við öðru marki. Mohamed Salah laumaði boltanum inn fyrir á Hollendinginn sem náði að teygja sig í boltann og koma honum í markið. Annað mark hans í þessari viku.

Það bætti gráu ofan á svart fyrir Newcastle aðeins fimm mínútum síðar er Nick Pope, markvörður liðsins, var rekinn af velli. Alisson átti langt spark fram á Mohamed Salah og ákvað Pope að hlaupa út úr teignum og mæta boltanum en misreiknaði hlaup sitt illa og neyddist því til að stökkva á boltann með hendurnar á undan sér og því réttilega rekinn af veli.

Allan-Saint Maximin og Dan Burn fengu báðir ágætis færi. Fyrst varði Alisson frá Saint-Maximin í slá og þá stangaði Burn boltanum í slá eftir hornspyrnu Kieran Trippier.

Bæði lið hefðu getað skorað í þeim síðari. Diogo Jota fékk gullið tækifæri undir lok leiks en boltinn rétt framhjá markinu og þá varði Alisson frá Callum Wilson.

Fleiri urðu mörkin ekki og Liverpool nú aðeins sex stigum á eftir Newcastle og leik til góða. Newcastle er í 4. sætinu með 41 stig en Liverpool í 8. sæti með 35 stig. Newcastle hafði ekki tapað leik í deildinni í sautján leikjum en síðasta tap liðsins var einmitt gegn Liverpool á Anfield.
Athugasemdir
banner
banner
banner