
Ísland 0 - 0 Wales
Lestu um leikinn
Lestu um leikinn
Íslenska kvennalandsliðið gerði markalaust jafntefli við Wales á Pínatar-æfingamótinu á Spáni í kvöld.
Á dögunum vann Ísland 2-0 sigur á Skotlandi. Það var fátt um fína drætti í fyrri hálfleiknum þar og var sama upp á teningnum í kvöld en liðið átti í stökustu vandræðum með að spila boltanum úr varnarlínunni og gekk illa að finna taktinn.
Wales skapaði sér tvö virkilega góð færi. Þær komust í gott færi á 8. mínútu en boltinn yfir markið og þá gleymdi Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir sér í vörninni tíu mínútum fyrir lok fyrri hálfleiks og komst Ceri Holland í dauðafæri, en hún ákvað að taka boltann í fyrsta og skotið yfir markið.
Rachel Rowe átti stuttu síðar fínasta skot að marki en Cecilía Rán Rúnarsdóttir varði það. Íslenska liðið heppið að vera ekki undir í hálfleik.
Wales hélt áfram að ógna í síðari hálfleiknum. Holland var að eiga erfiðan dag fyrir framan markið og skaut aftur yfir úr dauðafæri eftir að liðið spilaði sig í gegnum vörn íslenska liðsins.
Frammistaðan var arfaslök en batnaði aðeins eftir skiptingar á 62. mínútu. Sveindís Jane Jónsdóttir kom sér í ágætis færi á 75. mínútu en skotið rétt framhjá markinu.
Undir lok leiks kom Sveindís sér í dauðafæri er hún var alein í fjærstöng en krafturinn í skotinu var lítill auk þess sem boltinn fór ekki á markið. Hún fékk annað tækifæri skömmu síðar er hún slapp ein í gegn og markvörður Wales út á móti en skot Sveindísar hafnaði í hliðarnetinu.
Þetta var síðasta færi leiksins og markalaust jafntefli niðurstaðan.
Heilt á litið var frammistaðan slök en batnaði þó í síðari hálfleiknum. Ísland er með 4 stig á mótinu og tryggir sér líklega toppsætið með sigri á Filippseyjum á þriðjudaginn.
Athugasemdir