Stjarnan tók á móti Breiðablik á Samsung vellinum í 9. umferð Pepsí Max-deildar karla í kvöld þar sem Breiðablik sigraði 1-3. Ágúst Gylfason, þjálfari Breiðabliks var ánægður með karakterinn í liði sínu í kvöld.
Lestu um leikinn: Stjarnan 1 - 3 Breiðablik
„Frábær þrjú stig, ég er gríðarlega sáttur með liðið, það er ekki oft sem þú kemur á Samsung völlinn og sækir 3 stig. Fyrri hálfleikur var frekar skrýtinn, bæði lið voru einhvern veginn í krummafót, svo kemur seinni hálfleikur þar sem þeir setja mark á okkur og það kveikir svolítið í okkur. Leikmennirnir voru að kalla á mig síðasta hálftímann að þetta væri að koma, frábær liðssigur."
Thomas Mikkelsen kom útaf haltrandi en Gústi býst ekki við að hann sé mikið meiddur.
„Hann fékk högg aftan í hnakkann og var svolítið vankaður í hálfleik, svo var hann farinn að haltra eitthvað og við ákvaðum að taka hann útaf, Brynjólfur, Aron og Alexander komu svo gríðarlega vel inn í leikinn."
Breiðablik missir Jonathan Hendrickx í glugganum og Gústi segir að þeir séu að skoða í kringum sig en það sé ekkert öruggt að komi nýr maður inn.
„Við erum vel mannaðir en jú við erum að skoða í kringum okkur líka. Það skiptir ekki öllu máli hvort við bætum við okkur manni eða haldi hópnum sem er til staðar."
Athugasemdir