
Íslenska landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir var svekkt eftir að það varð ljóst að Ísland myndi ekki fara áfram í 8-liða úrslit Evrópumótsins í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 1 - 1 Frakkland
Ísland gerði 1-1 jafntefli við Frakka á meðan Belgía vann Ítalíu með einu marki gegn engu. Það þýðir það að Belgía fer áfram.
Í fyrsta sinn í sögunni gerist það að lið fari ekki upp úr riðlinum án þess að tapa leik, en Karólína er mest svekkt með að það hafi ekki tekist að ná í sigur gegn Belgíu eða Ítalíu.
„Bara svolítið súr held ég. Mér fannst við eiga skilið að fara upp úr riðlinum, en eftir á að hyggja svolítið súrt að hafa ekki tekið hina leikina. Við getum samt verið stoltar af okkur eftir frammistöðuna í dag."
„Ég held að það sé að hafa ekki klárað leikina sem við hefðum átt að klára. Það var enginn að búast við því að við myndum vinna Frakkana, svona þannig séð. Hefðum getað unndið Belgana og áttum færi til að vinna Ítalina."
„Held það sé jákvæðast hvað við vorum inn í öllum leikjunum. Þetta eru stórar þjóðir og verðum að halda áfram og framtíðin björt hjá okkur," sagði Karólína.
Hún var sérstaklega þakklát fyrir stuðningsinn sem íslenska liðið fékk á mótinu.
„Ég er svo þakklát fyrir þennan stuðning. Fólkið sem kom hingað út, að sitja í þessum ógeðslega hita og vera virk allan tímann. Ég er orðlaus hvað Ísland á geggjaða stuðningsmenn."
Hitabylgja ríður nú yfir Bretlandseyjar og var um það bil 37 stiga hiti í Rotherham, en það hafði áhrif á leikmenn.
„Það var ógeðslegt. Mér leið illa í hálfleik og það sást á mér held ég. Steini spurði hvort það væri ekki kveikt á mér, en þetta var aðeins skárra þegar leið á leikinn," sagði hún í lokin.
Athugasemdir