Félagaskipti ítalska varnarmannsins Riccardo Calafiori frá Bologna til Arsenal eru í hættu en þetta er sagt í ítalska blaðinu Gazzetta dello Sport.
Arsenal og Bologna hafa átt í viðræðum um Calafiori síðustu vikur.
Samkvæmt ítölsku miðlunum er Bologna staðráðið í að fá 42 milljónir punda fyrir Calafiori þar sem svissneska félagið Basel mun fá 50 prósent af fénu.
Arsenal hefur boðið um 34,5 milljónir punda í Calafiori, sem Bologna telur ekki nóg og hefur því ítalska félagið skipað honum að snúa aftur til æfinga eftir sumarfríið.
Það er ekki eina vandamál í þessum skiptum. Gazzetta dello Sport segir Bologna ósátt við að þurfa greiða Basel helming af kaupverðinu og ætlar því aftur í viðræður við svissneska félagið til að komast hjá því að greiða svona stóra summu.
Því hafa félagaskipti hans til Arsenal verið sett í biðstöðu á meðan Bologna ræðir við Basel.
Athugasemdir