Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   fim 18. júlí 2024 06:00
Brynjar Ingi Erluson
Rakitic á leið til Króatíu
Mynd: Getty Images
Króatíski miðjumaðurinn Ivan Rakitic er á leið aftur heim til Króatíu eftir farsælan feril en hann er að semja við Hajduk Split. Þetta kemur fram í króatíska miðlinum 24Sata.

Rakitic hefur aldrei spilað í Króatíu en hann valdi að spila fyrir landsliðið þar sem faðir hans er króatískur.

Hann ólst upp í Sviss og tók sín fyrstu skref í meistaraflokki með Basel.

Þaðan fór hann til Schalke í Þýskalandi þar sem hann lék í fjögur ár áður en hann hélt til Sevilla á Spáni. Þar skapaði hann sér stórt nafn í deildinni, svo stórt að Barcelona keypti hann þremur árum síðar eða sama ár og hann vann Evrópudeildina með Sevilla.

Rakitic átti stóran þátt í því er Barcelona vann Meistaradeildina tímabilið 2014-2015. Hann var valinn í lið ársins í keppninni og í kjölfarið valinn besti leikmaður ársins í Króatíu.

Hjá Barcelona vann hann þrettán titla áður en hann snéri aftur til Sevilla árið 2020 og vann síðan Evrópudeildina í annað sinn þremur árum síðar.

Rakitic yfirgaf Sevilla í byrjun þessa árs og fór til Al Shabab í Sádi-Arabíu, en hann hefur nú fengið samningi sínum rift og ætlar nú til Króatíu.

Samkvæmt 24Sata hefur hann náð samkomulagi við Hajduk Split og eru bundnar vonir við að hann verði kynntur í næstu viku.

Þar mun hann hitta fyrrum félaga sinn í landsliðinu, Ivan Perisic, sem kom frá Tottenham á dögunum.
Athugasemdir
banner
banner
banner