Zlatan Ibrahimovic sást á æfingu hjá AC Milan í dag ásamt Stefano Pioli þjálfara liðsins.
Zlatan yfirgaf Milan í sumar en hann var gríðarlega mikilvægur partur af liðsheildinni. Stefano Pioli og Sandro Tonali, sem var lykilmaður á miðjunni þar til hann fór til Newcastle í sumar, lýstu því í byrjun júní hversu svekktir þeir væru með áform Zlatan um að leggja fótboltaskóna á hilluna.
Þeir töldu liðið ekki vera tilbúið til að missa Zlatan frá sér og reyndu að sannfæra hann um að skipta um skoðun en það gerði hann ekki.
Nú er hann þó mættur á æfingasvæðið hjá Milan til að hjálpa liðinu á viðkvæmum tímapunkti snemma á tímabilinu, eftir 5-1 tap gegn nágrönnunum og erkifjendunum í Inter.
Næsti leikur Milan er í fyrstu umferð í Meistaradeild Evrópu gegn sterku liði Newcastle United. Liðin eru þar í svakalegum dauðariðli ásamt PSG og Borussia Dortmund.
„Við komumst að þessu í gær og það var ekki auðvelt. Við urðum að undirbúa okkur fyrir leikinn. Ég sá marga gráta, ég mun skoða þessar myndir oft. Þetta var erfitt eftir leikinn, við vorum ekki tilbúnir fyrir þetta," sagði Tonali um Zlatan í byrjun júní. „Hann gaf mér svo mikið. Sigurviljinn, hann varð klikkaður á æfingum eftir tapleiki. Hann var einstakur leikmaður. Við vorum ekki tilbúnir fyrir þetta. Hann veit að hann skilur eftir sig mikilvæga arfleifð."
Stefano Pioli tók undir. „Zlatan hugsar alltaf um hag liðsins og sér til þess að allir séu tilbúnir að vera hluti af heildinni. Hann hefur hjálpað yngri leikmönnum að þroskast og þróast. Það verður ekki auðvelt að byrja aftur án hans."
Zlatan verður 42 ára í október og það er ekki útilokað að hann verði ráðinn til Milan sem partur af þjálfarateyminu.