Kristinn Jakobsson, okkar fremsti dómari, er staddur á Englandi þar sem hann fylgist með störfum tveggja dómara í ensku úrvalsdeildinni. Í gær fylgdist hann með Lee Probert sem dæmdi Arsenal - Fulham og í dag fylgist hann með Phil Dowd sem dæmir Chelsea - Manchester United.
„Við erum að reyna að viða að okkur visku og gæðum enskra dómara. Þetta er í stórum dráttum þannig að við fylgjum dómurunum eftir í einu og öllu í þeirra undirbúningi og svo eftir leik," sagði Kristinn í viðtali við útvarpsþátt Fótbolta.net á X-inu FM 97,7 í gær.
„Starfsumhverfið er allt annað en við höfum kynnst heima enda er atvinnumennska í gangi. Fjármunirnir á Englandi sem eru lagðir í þetta eru gríðarlegir og þess vegna er pressan kannski eins og hún er. Það er fáránleg pressa á þessum strákum og hvert fótmál þeirra er skoðað."
Talað hefur verið um að mikill gæðamunur sé á bestu og slökustu dómurum ensku úrvalsdeildarinnar.
„Það er svolítið til í því eins og hjá hverju einasta liði eru alltaf góðir og slakari leikmenn. Þeir hafa verið að nálgast hvorn annan töluvert og eru að reyna að vinna þetta eins og eitt lið. Það á að gera veikasta hlekkinn í keðjunni eins sterkan og hann á að vera. Það gerist bara með fagmennsku, Það verður samt alltaf þannig að einhverjir verða betri en hinir."
Kristinn fellur af lista milliríkjadómara um næstu áramót vegna aldurs og mun þá leggja flautuna á hilluna. Komandi sumar er því hans síðasta tímabil í dómgæslu hér á landi.
„Þá er minn tími kominn eins og sagt er. Þá er næsta skref að hjálpa ungum og efnilegum dómurum að verða betri," sagði Kristinn en viðtalið má heyra í heild í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir