Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 19. janúar 2021 14:00
Magnús Már Einarsson
Þorsteinn brattur þrátt fyrir blóðtöku - Stefnan áfram sett á titilinn
Þorsteinn Halldórsson
Þorsteinn Halldórsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Selma Sól Magnúsdóttir
Selma Sól Magnúsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik hefur misst marga lykilmenn úr liði sínu sem vann Pepsi Max-deild kvenna á síðasta tímabili. Alexandra Jóhannsdóttir var í dag þriðji leikmaðurinn úr Íslandsmeistaraliðinu sem semur við félag í þýsku Bundesligunni en áður höfðu Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir gert slíkt hið sama.

„Þetta er frábært að því leytinu til að við sýnum leikmönnum að við erum að hjálpa þeim að verða betri og taka góð skref á ferlinum. Það er ekki oft sem það hefur gerst, ef það hefur gerst, að leikmenn hafi farið beint í svona stórlið eftir að hafa verið á Íslandi," sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks, við
Fótbolta.net í dag.

Endurheimta fjóra leikmenn
Berglind Björg Þorvaldsdóttir fór til Le Havre undir lok síðasta tímabils og markvörðurinn Sonný Lára Þráinsdóttir hefur lagt skóna á hilluna. Ásta Eir Árnadóttir og FJolla Shala eru að snúa aftur eftir barneignaleyfi og Selma Sól Magnúsdóttir og Hildur Antonsdóttir eru að koma til baka eftir krossbandaslit. Þorsteinn er því bjartsýnn á að Breiðablik geti barist áfram um Íslandsmeistaratitilinn næsta sumar.

„Ég hef fulla trú á því og enga ástæðu til að ætla annað," sagði Þorsteinn. „Við erum að fá inn leikmenn líka. Ásta Eir, Fjolla, Selma og Hildur Antons eru að koma til baka. Hildur ætti að verða klár um mitt mót og Selma eitthvað fyrr. Ásta er byrjuð að æfa á fullu en það er lengra í Fjollu."

Ungri Blikar að koma upp
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir kom til Breiðabliks frá KR á dögunum og Karítas Tómasdóttir kom frá Selfossi. „Það er ástæða fyrir því að við vildum fá þær. Þær eru komnar til að hjálpa okkur að vera í sömu stöðu áfram," sagði Þorsteinn en hann segir að Breiðablik muni ekki bæta mörgum leikmönnum við hópinn.

„Það verða ekki margar. Við erum líka með yngri leikmenn sem við ætlumst til að taki við. Á næstu árum sjáum við marga unga Blika koma upp. Karólína var 16 ára þegar hún kom til okkar og Alexandra var 17 ára. Þær hafa tekið skrefið hjá okkur. Þær stelpur sem við erum að tala um núna eru á svipuðum aldri eða örlítið yngri. Við náum vonandi að sjá eitthvað svipað í framtíðinni."

Skoða framherjamálin
Sveindís skoraði fjórtán mörk á síðasta tímabili og Berglind tólf og Þorsteinn segir að Brieðablik bæti mögulega við framherja.

„Við erum að skoða það. Við skoðum það hægt og rólega og það er nægur tími fram að móti. Það er líklegast að við leitum eitthvað þar. Það er samt ekkert ákveðið. Við ætlum aðeins að láta tímann vinna með okkur og sjá hvernig landið liggur þegar nær dregur móti," sagði Þorsteinn.
Athugasemdir
banner
banner
banner