Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 19. febrúar 2023 07:10
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Daily Mail 
Líklegastur til að eignast Man Utd en lítið er vitað um hann
Sjeik Jassim Bin Hamad Al Thani fæddist 1982.
Sjeik Jassim Bin Hamad Al Thani fæddist 1982.
Mynd: Jassim Bin Hamad Al Thani
Old Trafford, heimavöllur Manchester United.
Old Trafford, heimavöllur Manchester United.
Mynd: Getty Images
Frá Katar, þar sem HM var haldið á síðasta ári.
Frá Katar, þar sem HM var haldið á síðasta ári.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
„Svo lítið er vitað um Sjeik Jassim Bin Hamad Al Thani, katarska bankastjórann sem lagði inn 4,5 milljarða punda tilboð í Manchester United á föstudaginn, að jafnvel talsmenn sem vinna fyrir hann vita ekki aldur hans, hvort hann sé giftur eða hvernig hann eignaðist alla þessa peninga," segir í grein Daily Mail um katarska fjárfestingahópinn sem talinn er líklegastur til að eignast Manchester United.

Jassim fer fyrir hópnum og þó fyrsta tilboð hans sé tæplega tveimur milljörðum punda lægra en verðmiði Glazer bræðra þá ætti aðgangur hans að peningum ekki að vera vandamál. Þá er hann einnig með fjármagn til að eyða í leikmannakaup og nútímavæða bæði Old Trafford og æfingasvæði félagsins, að sögn heimildarmanna sem tengjast honum.

Sagður ástríðufullur stuðningsmaður Man Utd
Faðir Jassim er litríkur og stundum umdeildur en hann á eignir í nokkrum af ríkustu svæðum London og hefur látið fé af hendi rakna til góðgerðarmála sem Karl Bretakonungur hefur styrkt. Sjeik Hamad bin Jassim bin Jaber al-Thani, kallaður HBJ, var forsætisráðherra Katar 2007-2013.

Talað var um HBJ sem 'manninn sem keypti London' og hann var yfir ríkissjóði Katar, sem er skammstafaður QIA. Áætlað var 2013 að QIA hefði fjárfest í eignum í Bretlandi fyrir yfir 20 milljarða punda.

Jassim er einn fimmtán barna sem HBJ hefur eignast með tveimur eiginkonum sínum. Jassim er sagður ástríðufullur stuðningsmaður United og fæddist 1982, hann er 40 eða 41 árs (talsmenn hans vissu það ekki þegar Daily Mail spurði). Haldið er fram að hann hafi verið stuðningsmaður Manchester United frá því hann var 10 ára.

Talsmenn Jassim sem Daily Mail ræddi við segjast í raun og veru aldrei hafa hitt hann og vita ekki hvort hann sé giftur eða eigi börn. Þá geta þeir ekki svarað því hver ástæðan sé fyrir því að hann byrjaði að halda með United árið 1992, þegar liðið hafði ekki unnið Englandsmeistaratitil í 25 ár.

„Það er mögulegt að 10 ára gamall hafi hann gert sér grein fyrir því að Alex Ferguson var á barmi þess að breyta United í ráðandi afl næstu tvo áratugina og hafi því byrjað að halda með liðinu. Þeir sem rætt var við gátu ekki sagt hversu oft hann hefði farið á Old Trafford en sagt er að hann hafi farið á 'marga' United leiki í gegnum árin," segir í grein Daily Mail.

Tilboðið í grunninn frá katarska ríkinu
Talsmenn Jassim fullyrða að hann muni staðgreiða upphæðina fyrir félagið, hreinsa allar skuldir og fjárfesta mikið á öllum sviðum félagsins. Hann muni gera það í gegnum fjárfestingafyrirtæki sem hefur verið stofnað og kallast 'Nine Two Foundation'. Nafnið sé tilvísun í árið sem hann byrjaði að halda með United en hafi ekki neina tengingu við 'Class of 92' sem Gary Neville er í forsvari fyrir.

Þegar Jassim var 23 ára var hann ráðinn formaður QIB, eins stærsta banka Katar. Bankinn á hlut í Credit Suisse og þar hefur hann setið í stjórn. Það er þó lítið vitað um hann en klárlega hefur hann aðgang að ómældum auðæfum katarska ríkisins. Það er engin tilviljun að QIA er stærsti hluthafinn í QIB bankanum eða að QIA eigi félagið sem keypti Paris Saint-Germain 2011.

Það eru aðeins 330 þúsund katarskir ríkisborgarar í Katar, færri en búa á Íslandi, og konungsfjölskyldan og stjórnendur landsins eru gríðarlega rík. Jassim og faðir hans eru hluti af þeim.

„Það er auðvelt að draga þá ályktun að tilboð Jassim sé í grunninn frá ríkinu, fjármagnað af QIA. Þótt peningum verði dælt inn í United í gegnum bankareikning með nafni hans þá kæmi sá peningur ekki í grunninn frá hans eigin tekjum," segir í grein Daily Mail.

Bent er á að ef félög í Evrópu hafa athugasemdir við þetta, og möguleg tengsl milli Manchester United og Paris Saint-Germain, þurfi fyrst að fara í gegnum félagasamtök Evrópu, European Clubs' Association. Stjórnarformaður samtakanna er Katarinn Nasser Al-Khelifa forseti PSG og meðlimur QIA og framkvæmdastjórnar UEFA.

Að auki er líklegt að fjármálaeftirlit UEFA úrskurði að tvöfalt eignarhald sé lögmætt ef gætt er að aðskilnaði milli United og PSG að því leyti að félagin hafi aðskildar stjórnir og aðskilið fyrirtækjaskipulag án samráðs. UEFA hefur þegar veitt fordæmi í slíku með því að leyfa bæði RB Leipzig og Red Bull Salzburg að keppa í Meistaradeildinni en bæði félögin eru fjármögnuð af orkudrykkjafyrirtækinu Red Bull.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner