Það eru heldur betur óvænt tíðindi í liðsvali Keflavíkur fyrir leikinn gegn Breiðabliki í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 4 - 1 Keflavík
Vinstri bakvörðurinn Rúnar Þór Sigurgeirsson er mættur aftur í byrjunarlið Keflavíkur eftir meiðsli. Rúnar er að spila sinn fyrsta leik síðan í september og er að byrja sinn fyrsta leik í tæpt ár. Hann er alls búinn að spila 17 mínútur síðan 24. maí síðastliðinn.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, sagði frá því á dögunum að það væri óvíst hvort að Rúnar yrði með í sumar vegna meiðsla.
„Maður veit ekki með Rúnar, verður eiginlega að líta á það sem bónus ef hann getur verið með okkur. Þetta er búið að vera ofbosðlega þrálátt, tekur kannski eina og eina æfingu en svo er hann orðinn slæmur aftur," sagði Siggi Raggi.
Þjálfari Keflvíkinga sagði svo nokkrum dögum síðar að Rúnar væri á leið í aðgerð 25. apríl út af kviðsliti.
Rúnar, sem er 22 ára gamall, væri líklega kominn út í atvinnumennsku ef ekki væri fyrir meiðslin. Það verður áhugavert að fræðast um það hvers vegna hann getur spilað í kvöld. Svör við því munu fást á eftir.
Athugasemdir