Nikola Pokrivac, fyrrum landsliðsmaður Króatíu, lést í umferðarslysi í gær, aðeins 39 ára að aldri.
Pokrivac átti farsælan feril með liðum á borð við Dinamo Zagreb, Mónakó, Red Bull Salzburg og HNK Rijeka.
Króatinn spilaði stöðu miðjumanns og lék 15 A-landsleiki fyrir þjóð sína.
Hann spilaði fyrsta A-landsleik sinn gegn Moldóvu í vináttuleik fyrir EM 2008 og lék síðan einn leik á mótinu.
Landsliðsferill hans var ekki langur en aðeins tveimur árum síðar lék hann sinn síðasta landsleik í vináttuleik gegn Norðmönnum.
Pokrivac neyddist til að leggja skóna á hilluna árið 2015 eftir að hann greindist með eitilfrumukrabbamein en sneri aftur á völlinn árið 2021 eftir að hafa sigrast á meininu.
Staðarmiðlar í Króatíu upplýstu um andlát Pokrivac um helgina, en hann lenti í fjögurra bíla umferðarslysi. Hann var í bíl með þremur liðsfélögum sínum, en aðeins tveir komust lífs af.
„Nikola var frábær fótboltamaður sem sýndi magnað hugrekki í lífinu með því að sigrast á hræðilegum sjúkdómi og lifði fyrir fótbolta fram að síðasta augnabliki hans í þessum heimi. Þetta er gríðarlegur missir fyrir fótboltasamfélagið og sérstaklega sársaukafullt fyrir fjölskylduna,“ sagði Marijan Kustic, forseti króatíska fótboltasambandsins, í dag.
Athugasemdir