Cecilía Rán Rúnarsdóttir hélt enn og aftur hreinu fyrir Inter sem vann Roma 3-0 í Seríu A á Ítalíu í dag. Inter mun spila í Meistaradeild Evrópu í fyrsta sinn í sögu kvennaliðsins á næsta tímabili.
Landsliðskonan heldur áfram að gera stórkostlega hluti á tímabilinu en hún er á láni frá þýska félaginu Bayern München.
Inter var mun betra liðið í leiknum en þau tvö dauðafæri sem Roma fékk var skot í stöng og ein tilraun sem fór rétt framhjá markinu.
Cecilía hélt hreinu í níunda sinn í deildinni, oftast allra markvarða í deildinni.
Því miður fyrir Inter er titilbaráttunni lokið eftir 2-0 sigur Juventus á AC Milan í gær.
Tímabilið samt mjög jákvætt hjá Inter og er stórkostlegur árangur liðsins að miklu leyti Cecilíu að þakka. Ekki skemmdi fyrir að sigurinn í dag tryggði liðinu sæti í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð og það í fyrsta sinn í sögunni.
Dagný Brynjarsdóttir og stöllur hennar í West Ham gerðu markalaust jafntefli við titilbaráttulið Manchester United í Lundúnum.
Dagný kom inn af bekknum þegar tíu mínútur voru til leiksloka og hjálpaði West Ham að landa stiginum
West Ham er í 7. sæti með 20 stig en þessi tvö töpuðu stig hjá Man Utd skemmdi fyrir liðinu í titilbaráttunni. Liðið er nú með 43 stig, fimm stigum frá toppnum þegar þrjár umferðir eru eftir.
Málfríður Anna Eiríksdóttir spilaði í markalausu jafntefli B93 gegn Thisted. B93 er í 3. sæti í fallriðli dönsku úrvalsdeildarinnar með 5 stig.
Bryndís Arna Níelsdóttir byrjaði í liði Växjö sem tapaði fyrir Häcken, 3-1, í sænsku úrvalsdeildinni. Växjö er með 3 stig eftir fjóra leiki.
Hildur Antonsdóttir spilaði á miðsvæði Madrid sem gerði 1-1 jafntefli við Athletic Bilbao í Liga F á Spáni. Hún fór af velli þegar fimmtán mínútur voru eftir en Ásdís Karen Halldórsdóttir var ónotaður varamaður.
Madrid er í 10. sæti með 29 stig þegar fjórar umferðir eru eftir af deildinni.
Athugasemdir