Við vitum hvað við afrekuðum
Víkingur tapaði á grátlegan hátt gegn Shamrock Rovers í 1. umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni. Nikolaj Hansen skaut í utanverða stöngina af vítapunktinum úr síðustu spyrnu einvígisins, ef hann hefði skorað hefði verið spilaður hálftími til viðbótar og Víkingar manni fleiri.
Fyrir ári síðan vann Breiðablik Shamrock á sama stigi í sömu keppni. Breiðablik vann báða leikina gegn írsku meisturunum. Sigurinn í því einvígi kom liðinu í frábæra stöðu upp á sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Sætið þar var svo tryggt með sigri á norður-makedónsku meisturunum í Struga.
Þeir Höskuldur Gunnlaugsson og Halldór Árnason voru spurðir út í Shamrock í viðtölum í vikunni.
Fyrir ári síðan vann Breiðablik Shamrock á sama stigi í sömu keppni. Breiðablik vann báða leikina gegn írsku meisturunum. Sigurinn í því einvígi kom liðinu í frábæra stöðu upp á sæti í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar. Sætið þar var svo tryggt með sigri á norður-makedónsku meisturunum í Struga.
Þeir Höskuldur Gunnlaugsson og Halldór Árnason voru spurðir út í Shamrock í viðtölum í vikunni.
„Þetta er gjörólíkt Shamrock lið frá því sem við spiluðum við. Þeir eru með lítið sjálfstraust, eru neðar í deildinni, með mörg töp á bakinu í síðustu leikjum og án svona sinna bestu manna. Þeir spiluðu allt annan leik á móti Víkingi (en þeir gerðu í fyrra), fóru neðarlega á völlinn og reyndu að beita skyndisóknum sem gekk til að byrja með í gær. Víkingar voru með algjöra yfirburði í báðum leikjunum heilt yfir, manni fleiri í nokkuð stóran hluta af þessum leikjum. Shamrock gerði ágætlega í að harka þetta út, en Víkingar voru með öll tök á þessu einvígi í 170 mínútur. Mér finnst erfitt að bera þetta saman. Þegar við spiluðum við þá, þá voru þeir langefstir í deildinni, tvöfaldir meistarar og nýkomnir úr riðlakeppni í Evrópu. Svo gerist greinilega eitthvað hjá þeim í vetur, fóru illa af stað á þessu tímabli og voru með lítið sjálfstraust. Beittu því allt annarri leikaðferð sem Víkingar náðu ekki að brjóta á bak aftur þrátt fyrir ansi margar tilraunir," sagði þjálfarinn Halldór Árnason.
Eiga Blikarnir skilið meiri virðingu fyrir sigurinn í fyrra?
„Við vitum hvað við afrekuðum. Það er erfitt að vinna leiki í Evrópukeppni, erfitt að vinna einvígi. Það þarf mikið til og við höfum gert vel í því síðustu ár. Við vitum hvað við höfum lagt á okkur og ég held að stuðningsmenn séu mjög stoltir af liðinu. Við þurfum ekki meiri virðingu en það. Ég var ekki endilega var við að það væri verið að gera lítið úr þessu."
„Víkingarnir eru ennþá í góðri stöðu, þeir eru í annarri Sambandsdeild, fara Meistaraleiðina og eru ennþá í dauðafæri á að fara áfram," sagði Dóri.
Fyrirliðinn Höskuldur hafði eftirfarandi að segja:
„Ég sá síðasta hálftímann í seinni leiknum. Ég er ekki alveg dómbær á fyrri háflleikinn þar sem Johnny Kenny skoraði mörkin. Hann náði að refsa Víkingi með flottum hraða og einstaklingsgæðum í fyrri leiknum. Af því sem ég sá þá lágu Víkingarnir vel á þeim. Shamrock náði þessu forskoti sem var erfitt að brjóta á bak aftur. Shamrock voru flottir í að verja sinn teig og á endanum réðist þetta á vítaspyrnu í uppbótartíma."
„Ég veit það ekki (hvort við eigum skilið meiri virðingu), maður var ekkert mikið að pæla í þeirri tvískiptingu á skoðunum um hvað fólki fannst um þann sigur í fyrra. Við vissum að við vorum að spila á móti hörkuflottu liði, ekkert grín að mæta meisturunum frá Írlandi. Ég persónulega þarf ekki á neinni viðurkenningu að halda."
Eins og Dóri kom inn á fer Víkingur yfir í Sambandsdeildina og mætir þar meisturunum frá Albaníu. Breiðablik fer aðra leið í Sambansdeildinni og næsti andstæðingur, eftir að Tikves var slegið út í gær, er Drita frá Kósóvó.
Athugasemdir