Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   fös 19. júlí 2024 23:04
Brynjar Ingi Erluson
Man Utd gæti nýtt sér ófarir Everton - Íhuga að leggja fram lokatilboð í Branthwaite
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Manchester United er alvarlega að íhuga það að leggja fram nýtt og endurbætt tilboð í Jarrad Branthwaite, varnarmann Everton, eftir að Friedkin Group hætti við kaup á enska félaginu. Þetta kemur fram í Telegraph.

Dan Friedkin, eigandi Friedkin Group, dró sig úr viðræðum um kaup á Everton vegna áhyggna um skuldastöðu félagsins.

Mikil óvissa hefur verið í kringum Everton en bandaríska fjárfestingafyrirtækið 777 Partners höfðu áður reynt að eignast félagið en tókst ekki ætlunarverkið. Í ferlinu lánaði 777 Everton háa fjárhæð og flækjustigið í kringum það er talið skipta miklu máli í því að Friedkin hætti við.

Farhad Moshiri, eigandi Everton, ætlar nú að skoða aðra möguleika, en þetta eru ófarir sem Manchester United gæti nýtt sér.

Telegraph segir að United hafi verið við það að gefast upp á að reyna fá enska varnarmanninn Jarrad Branthwaite í sumarglugganum.

Everton hefur þegar hafnað tveimur tilboðum United í leikmanninn en félagið hefur verið harðákveðið þegar það kemur að verðmiða leikmannsins. Það vill 75 milljónir punda og hefur ekki orðið nein breyting á þar.

Nú er hins vegar möguleiki á að Everton skoði það að selja hann ódýrara vegna fjárhagsstöðu félagsins.

Síðasta tilboð United hljóðaði upp á 50 milljónir punda en það íhugar nú að leggja fram lokatilboð upp á 55 milljónir. Félagið er ekki til í að fara hærra en það.

United hefur einnig átt í viðræðum við hollenska miðvörðinn Matthijs De Ligt hjá Bayern München. Það sem Branthwaite hefur fram yfir De Ligt er það að hann er örvfættur, sem er nákvæmlega það sem United er í leit að.

Öll umræða um leikmannakaup veltur þó á sölu annarra leikmanna. Victor Lindelöf hefur verið orðaður við tyrknesk félög, en ekkert fast tilboð komið á borðið. Framtíð Harry Maguire er þá í óvissu.

Brandon Williams og Raphael Varane yfirgáfu United í sumar eftir að samningur þeirra rann út og þá seldi félagið þá Willy Kambwala og Alvaro Fernandez til Villarreal og Benfica.

United gekk frá kaupum á franska undrabarninu Leny Yoro í gær fyrir tæpar 60 milljónir punda og þá kom Joshua Zirkzee frá Bologna fyrir um 35 milljónir punda.
Athugasemdir
banner
banner