Lærði að taka hornspyrnur á 90 mínútum
„Mér fannst þetta fáránlegasti leikur sem ég hef spilað lengi," sagði Guðmundur Reynir Gunnarsson fyrirliði Víkings Ólafsvík eftir 6-2 sigur á Fjarðabyggð í dag en leikið var í gríðarlegu roki á annað markið og rigningu í þokkabót.
Lestu um leikinn: Víkingur Ó. 6 - 2 Fjarðabyggð
„Þetta var fáránlega mikill vindur en við gerðum þetta eins og allt tímabilið og náðum að vera með baráttu allan tímann. Þvílíkur karakter í þessu liði og við kláruðum þetta svona."
Liðin fengu gríðarlegan fjölda hornspyrna í leiknum og öll fóru langt í burtu útaf vindinum. Mummi náði þó að læra á vindinn í lokaspyrnu leiksins þegar hann tók hornið stutt og sendi svo á markið þar sem boltinn fór inn með viðkomu í leikmanni Fjarðabyggðar.
„Þetta var mitt mark, ég talaði við dómarann og ég held að hann hafi ekki skráð þetta á mig. En þetta var mitt mark, ég náði að læra hvernig átti að gera hornspyrnur á 90 mínútum."
Mummi hætti í fótbolta síðasta haust eftir að hafa leikið með uppeldisfélagi sínu, KR og orðið bikarmeistari. Hann kom svo í Ólafsvík í vor.
„Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í og bjóst ekkert við miklu. Þetta var ótrúlegt sumar miðað við hvernig gekk, vorum við ekki að jafna markamet og bættum metið í fáum mörkum á okkur á sama tímabili og að bæta stigametið í leiðinni. Þetta er ótrúlegt og eins gott tímabil og hægt er."
Hann kom á láni frá KR og nú þegar bæði liðin eru komin í efstu deild og Mummi var að lyfta bikar með Ólsurum, hvar verður hann næsta sumar?
„Ég býst við að vera í KR," sagði Mummi. „Ég veit að ég á ekki að vera með neinar yfirlýsingar núna, ég gerði það á síðasta tímabili og svo breytast skoðanir á mörgum mánuðum. Ég veit ekkert hvað ég ætla að gera, það er bara þannig. Ég segi þér það bara eftir nokkra mánuði."
Athugasemdir























