lau 19. september 2020 18:27
Ívan Guðjón Baldursson
England: Man Utd byrjar á tapi gegn Crystal Palace
Mynd: Getty Images
Man Utd 1 - 3 Crystal Palace
0-1 Andros Townsend ('7)
0-2 Wilfried Zaha ('74, víti)
1-2 Donny van de Beek ('80)
1-3 Wilfried Zaha ('85)

Manchester United byrjar nýtt úrvalsdeildartímabil á tapi gegn Crystal Palace.

Andros Townsend kom gestunum yfir snemma leiks og er hægt að setja spurningarmerki við David de Gea í markinu.

Bæði lið fengu færi í nokkuð jöfnum leik þar sem skyndisóknir gestanna voru hættulegri. Á 72. mínútu fékk Palace vítaspyrnu þegar boltinn fór í hendi Victor Lindelöf en De Gea varði spyrnuna. Spænski markvörðurinn kom knettinum aftur í leik en skömmu síðar var leikurinn stöðvaður til að láta endurtaka vítaspyrnuna.

VAR dómarateymið tók þá eftir því að De Gea var ekki með fót á marklínunni þegar vítaspyrnan fór af stað. Það munaði nokkrum millimetrum.

Jordan Ayew brenndi af fyrri spyrnunni og steig Zaha á punktinn í endurtekningunni og skoraði með föstu skoti þó De Gea hafi náð að setja hendi í knöttinnn.

Donny van de Beek var nýlega kominn inná þegar boltinn barst til hans í vítateig Palace og skoraði hollenski miðjumaðurinn í sínum fyrsta keppnisleik fyrir Rauðu djöflana. Markið kom eftir varnarmistök hjá gestunum.

Man Utd gat bjargað stigi en sú von lifði aðeins í nokkrar mínútur því Zaha innsiglaði sigur Palace skömmu síðar eftir slaka varnarvinnu hjá Lindelöf, sem átti hörmulegan leik.

Lokatölur 1-3 og er Palace með sex stig eftir tvær umferðir. Þetta var fyrsti leikur Man Utd á tímabilinu.
Athugasemdir
banner
banner