Isak, Tuchel, Sesko, Amorim, Rabiot, Branthwaite og fleiri góðir í slúðrinu í dag
   sun 19. september 2021 10:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Derby
Derby í klandri - Mikil óvissa ríkir með framtíðina
Wayne Rooney er stjóri Derby.
Wayne Rooney er stjóri Derby.
Mynd: Getty Images
Frá Pride Park, heimavelli Derby.
Frá Pride Park, heimavelli Derby.
Mynd: Getty Images
Derby County vann frábæran 2-1 sigur gegn Stoke City á Pride Park í Championship-deildinni í gær.

Graeme Shinnie og Curtis Davies skoruðu mörk Derby. Stuðningsmenn félagsins létu vel í sér heyra og stóðu þétt við bakið á liðinu.

En utan vallar er svo sannarlega hægt að segja að það sé allt í rugli hjá Derby. Útlitið er hræðilegt.

Það hefur verið vandræðagangur á stjórnendum félagsins síðustu mánuði. Svo fyrir helgi var greint frá því að Derby væri komið í greiðslustöðvun.

Vinna hefur verið í gangi við að reyna að finna kaupendur fyrir félagið, en það hefur ekki gengið sem skyldi.

Það kom fram í yfirlýsingu frá hæstráðendum Derby að félagið hefði tapað 20 milljónum punda í kórónuveirufaraldrinum og því geti núverandi stjórnendur ekki haldið áfram að standa í rekstrinum.

Fyrir það að fara í greiðslustöðvun verða 12 stig tekin af Derby. Félagið gæti jafnframt misst níu stig ofan á það, þar sem ekki var allt með feldu í bókhaldinu síðustu árin. Það er ekki enn búið að ákveða alveg með stigin níu.

Derby hefur síðustu ár verið fínt lið í næst efstu deild Englands en stuðningsmenn hafa núna miklar áhyggjur af framtíð félagsins. Það er mikil óvissa með það hvað gerist. Derby er ekki fyrsta fótboltafélagið á Englandi sem fer í greiðslustöðvun. Fyrir 11 árum síðan gerðist slíkt hið sama við Portsmouth, sem var þá í úrvalsdeild. Portsmouth rúllaði alveg niður í D-deild og er núna í C-deild, enn að jafna sig á slæmum eigendum.

Svo er annað dæmi með Bury, sem fór í greiðslustöðvun og er bara ekki lengur til. Félag sem varð í raun bara að engu, þó enn sé verið að reyna að lífga það við.

Derby er frekar stórt félag með mikla sögu. Það er eina félagið í borginni - Derby - og skiptir það miklu máli fyrir fólkið að það sé til staðar. Hvað mun fólkið í borginni gera á laugardögum ef Derby verður ekki lengur til staðar? Það er spurning sem fólkið - stuðningsfólkið - vill helst ekki hugsa um núna.

Eftir sigurinn í gær er Derby í 12. sæti Championship. Þá er ekki verið að taka mínusstigin tólf inn í myndina. Wayne Rooney, sem er goðsögn í enskum fótbolta, er þjálfari liðsins og er ekki annað hægt að segja en að hann sé að gera frábæra hluti miðað við aðstæðurnar, sem eru mjög erfiðar.


Athugasemdir
banner
banner
banner