Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
   sun 19. september 2021 15:27
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Nýliðarnir koma vel inn - „Sér hvað hún er ótrúlega góð"
Icelandair
Diljá og Amanda ræða við Sveindísi Jane.
Diljá og Amanda ræða við Sveindísi Jane.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það eru tveir nýliðar í íslenska landsliðshópnum fyrir leikinn á móti Hollandi í undankeppni HM á þriðjudag.

Það eru þær Amanda Andradóttir, leikmaður Vålerenga í Noregi, og Diljá Ýr Zomers, leikmaður Häcken í Svíþjóð.

Alexandra Jóhannsdóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir, sem eru nú engir reynsluboltar í landsliðinu, sátu fyrir svörum á fréttamannafundi í dag og voru þær spurðar hvernig nýliðarnir væru að koma inn í hópinn.

Alexandra: „Þær koma vel inn í hópinn. Það þekkjast allir hérna. Diljá er búin að spila með FH-stelpunum og er búin að vera með einhverjum í yngri landsliðunum. Amanda er aðeins yngri, en hún er að koma vel inn. Hún er að sanna sig á æfingum."

Sveindís: „Ég þekki Diljá mjög vel og veit alveg hvað hún getur. Hún á fullt erindi að vera í þessum hóp. Það er gott að fá hana inn. Hún er búin að vera að standa sig mjög vel á æfingum. Amanda er rosalega ung, tveimur árum yngri en ég. Hún er líka að koma mjög vel inn í þetta. Maður sér hvað hún er ótrúlega góð. Það er gott að hún hafi fengið tækifærið núna. Hún er að sýna sig og sanna."

Hverjir eru nýliðarnir?
Amanda er 17 ára gömul og spilar sem miðjumaður. Amanda er uppalin á Íslandi og er faðir hennar Andri Sigþórsson, fyrrum landsliðsmaður. Hún getur valið þess að spila með Íslandi eða Noregi, þar sem móðir hennar er norsk. Hún var á dögunum valin í U19 landslið Noregs en svo var hennar að velja á milli, þar sem hún var líka valin í A-landslið Íslands. Hún valdi Ísland.

Diljá er 19 ára og spilar sem sóknarmaður, eða framarlega á vellinum. Hún lék með FH, Stjörnunni og Val hér á landi áður en hún ákvað að söðla um og fara til Svíþjóð fyrr á þessu ári. Hún samdi þar við meistaraliðið Häcken - hvorki meira né minna. Á þessu tímabili hefur hún skorað sex mörk í 13 leikjum í deild og bikar í einu besta liði Svíþjóðar.

Þessar tvær gætu báðar spilað sinn fyrsta A-landsleik gegn Hollandi á þriðjudag, er Ísland hefur leik í undankeppni HM 2023.
Athugasemdir