þri 19. október 2021 20:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Meistaradeildin: Messi og Salah með sigurmörk í frábærum leikjum
Lionel Messi.
Lionel Messi.
Mynd: Getty Images
Mohamed Salah.
Mohamed Salah.
Mynd: Getty Images
Vinicius skoraði tvö.
Vinicius skoraði tvö.
Mynd: Getty Images
Lærisveinar Erik Ten Hag í Ajax líta mjög vel út.
Lærisveinar Erik Ten Hag í Ajax líta mjög vel út.
Mynd: Getty Images
Sheriff er enn á toppnum í D-riðlinum þrátt fyrir tap gegn Inter.
Sheriff er enn á toppnum í D-riðlinum þrátt fyrir tap gegn Inter.
Mynd: Getty Images
Lionel Messi og Mohamed Salah skoruðu sigurmörk sinna liða í riðlakeppni Meistaradeildarinnar í kvöld.

Það voru rosalegir leikir í París og Madríd.

Í París
RB Leipzig frá Þýskalandi spilaði mjög vel á köflum í höfuðborg Frakklands. Kylian Mbappe kom PSG yfir í leiknum en Andre Silva jafnaði fyrir leikhlé.

Það var mikil ákefð í því sem Leipzig var að gera og þeir tóku forystuna er Nordi Mukiele skoraði á 57. mínútu. Við það rankaði PSG við sér. Messi jafnaði eftir undirbúning frá Kylian Mbappe og stuttu eftir það féll Mbappe í teignum. Messi fór á vítapunktinn, var eitursvalur og skoraði.

PSG fékk aðra vítaspyrnu í uppbótartímanum. Í það skiptið fór Mbappe á punktinn, en hann skaut yfir markið.

Lokatölur 3-2 fyrir PSG í bráðskemmtilegum leik. PSG er á toppi riðilsins með sjö stig, svo kemur Man City með sex stig, Club Brugge með fjögur stig og Leipzig án stiga.

Í Madríd
Atletico tók á móti Liverpool og úr varð frábær leikur. Liverpool spilaði eins og besta lið Evrópu til að byrja með og tók snemma 2-0 forystu. Salah skoraði fyrsta markið og Naby Keita var svo á ferðinni er hann skoraði með flottu skoti.

Atletico gafst ekki upp og tókst þeim að jafna fyrir leikhlé. Antoine Greizmann skoraði bæði mörkin. Sá franski hafði ekki sagt sitt síðasta í leiknum. Hann fékk rautt spjald fyrir að sparka óvart í andlitið á Roberto Firmino snemma í seinni hálfleiknum.

Salah skoraði sigurmark Liverpool úr vítaspyrnu áður en flautað var til leiksloka. Hann er sjóðandi heitur inn á vellinum um þessar mundir. Atletico fékk dæmda vítaspyrnu eftir að Liverpool tók forystuna, en ákvörðuninni var svo breytt eftir VAR-skoðun.

Liverpool er með fullt hús stiga eftir þrjá leiki. Atletico og Porto - sem lagði AC Milan í kvöld - eru með fjögur stig. Milan er án stiga.

Stórsigrar hjá Ajax og Real Madrid
Hollenska stórliðið Ajax hefur farið stórkostlega af stað á þessu tímabili. Þeir komu mjög á óvart í Meistaradeildinni 2018/19 tímabilið og spurning hvort það gerist aftur í ár.

Ajax fór illa með Dortmund í kvöld og er á toppnum í C-riðlinum með níu stig. Dortmund er með sex stig. Svo kemur Sporting með þrjú stig og Besiktas án stiga.

Í D-riðlinum vann Real Madrid 5-0 sigur á Shakhtar Donetsk, og þá vann Inter 3-1 sigur á Sheriff frá Moldavíu. Þetta er fyrsta tap Sheriff í Meistaradeildinni í ár, en liðið er áfram á toppnum í riðlinum með sex stig. Real Madrid er einnig með sex stig og Inter með fjögur stig.

A-riðill:
Paris Saint Germain 3 - 2 RB Leipzig
1-0 Kylian Mbappe ('10 )
1-1 Andre Silva ('28 )
1-2 Nordi Mukiele ('57 )
2-2 Lionel Andres Messi ('67 )
3-2 Lionel Andres Messi ('74 , víti)

B-riðill:
Atletico Madrid 2 - 3 Liverpool
0-1 Mohamed Salah ('8 )
0-2 Naby Keita ('13 )
1-2 Antoine Griezmann ('20 )
2-2 Antoine Griezmann ('34 )
2-3 Mohamed Salah ('78 , víti)
Rautt spjald: Antoine Griezmann, Atletico Madrid ('52)

Porto 1 - 0 Milan
1-0 Luis Diaz ('65 )

C-riðill:
Ajax 4 - 0 Borussia D.
1-0 Marco Reus ('11 , sjálfsmark)
2-0 Daley Blind ('25 )
3-0 Antony Santos ('57 )
4-0 Sebastian Haller ('72 )

D-riðill:
Shakhtar D 0 - 4 Real Madrid
0-1 Serhiy Kryvtsov ('37 , sjálfsmark)
0-2 Vinicius Junior ('51 )
0-3 Vinicius Junior ('56 )
0-4 Rodrygo ('65 )

Inter 3 - 1 Sherif
1-0 Edin Dzeko ('34 )
1-1 Sebastien Thill ('52 )
2-1 Arturo Vidal ('58 )
3-1 Stefan de Vrij ('67 )
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner