Íslensku atvinnukonurnar okkar gerðu ágætis hluti í Evrópuboltanum í dag.
Diljá Ýr Zomers byrjaði í liði Leuven sem vann 3-0 sigur á Standard Liege í meistarariðli belgísku úrvalsdeildarinnar.
Íslenska landsliðskonan komst ekki á blað í dag en er samt sem áður áfram markahæst með 19 mörk.
Leuven komst upp að hlið Anderlecht á toppnum en bæði lið eru með 34 stig.
Þórdís Elva Ágústsdóttir var í byrjunarliði Växjö sem vann Örebro, 1-0, í Íslendingaslag. Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir og Katla María Þórðardóttir byrjuðu hjá Örebro en Bergþóra Sól Ásmundsdóttir kom inn af bekknum. Bryndís Arna Níelsdóttir var ekki með Växjö í dag.
Växjö er með 3 stig en Örebro er án stiga eftir tvo leiki.
Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn á miðsvæði Juventus sem vann Sassuolo, 2-1, í Seríu A á Ítalíu. Juventus er í öðru sæti meistarariðilsins með 50 stig, ellefu stigum frá toppliði Roma þegar fjórir leikir eru eftir.
Athugasemdir