fim 20. maí 2021 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Faðir Scamacca vann skemmdarverk á eina titli Roma síðan 2008
Hinn efnilegi Scamacca er með 12 mörk í 29 leikjum fyrir Genoa.
Hinn efnilegi Scamacca er með 12 mörk í 29 leikjum fyrir Genoa.
Mynd: Getty Images
Gianluca Scamacca er 22 ára sóknarmaður sem hefur gert góða hluti hjá Genoa að láni frá Sassuolo.

Faðir hans var handtekinn eftir að hafa gengið berserksgang um æfingasvæði AS Roma síðastliðið mánudagskvöld. Hann mætti á æfingasvæðið klæddur treyju Sassuolo og lagði nokkra bíla á bílastæðinu í rúst með felgujárni.

Hann komst inn á æfingasvæðið og vann meðal annars skemmdir á eina titli Roma í rúman áratug, Bonsai-tré sem liðið fékk fyrir að sigra Real Madrid í úrslitaleik á æfingamóti sumarið 2019.

Ítalskir fjölmiðlar greina frá því að markmið Scamacca eldri hafi verið að finna Bruno Conti, fyrrum landsliðsmann Ítalíu og núverandi yfirmann unglingastarfs AS Roma.

Það var æfing í gangi hjá unglingaliði Roma og var lögregla kölluð til. Scamacca vann skemmdir á bifreið lögreglu áður en hann var tekinn inn og sendur í geðmat.

Gianluca Scamacca, sonurinn, lék bæði fyrir unglingalið Lazio og Roma áður en hann fór til PSV Eindhoven og svo til Sassuolo.
Athugasemdir
banner
banner
banner